Allt tekur enda...............

Almáttugur minn hvað það er langt síðan ég hef bloggað.  Ég biðst afsökunar.  Vonandi hafa myndirnar glatt einhvern (t.d. Eddu systurdóttur, sem hefur kvartað opinberlega undan myndaleysi).  Það helsta sem er að frétta héðan er að síðasti kennsludagur var í dag.  Nú er ekkert eftir nema –Farwell luncheon – á morgun.  Það hefur safnast að mér um 10 kg. af námskeiðsefni.  Póstþjónusta Bandaríkjanna og Íslands munu fá það hlutverk að koma öllu þessu til mín. 

 

142_4207Tíminn er aldeilis fljótur að líða, komið að kveðjustund.  Hún verður svo sannarlega ekki auðveld.  Hér hef ég kynnst mörgu ágætisfólki sem ég vonast náttúrulega til að geta haldið sambandi við til frambúðar.  Margir virðast vera sama sinnis, því tölvupóstföngum var safnað í dag, af miklum móð.

 

Ég get ekki annað sagt en að þetta hefur verið aldeilis frábær tími.  Nóg að gera bæði á námskeiðinu og líka í frítímanum.  Ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa eytt þessum 6 vikum hér í Washington (og víðar),  hitastigið hefði oft og tíðum mátt vera hærra en förum ekki nánar út í það.  Ekki ónýtt að leika ferðamann fyrir utan þessar fáu stundir á dag, sem námskeiðið tók.

Washington 6 week 112Af hitastigi er það að frétta að s.l. mánudag fór hitinn í 28°C en síðan hefur hann fallið með hverjum deginum sem líður og í morgun var einungis 3ja stiga hiti.  Það er spáð frosti hér á morgun.  Hvernig er hægt að botna í þessu?  Ég er ýmist í sumarpilsi, með regnhlíf eða vafin inn í hlýju pasmínuna mína.  Ótrúlegt.  Jæja, ég tek flug frá BWI á páskadagskvöld og lendi í Keflavík eldsnemma að morgni annars í páskum.  Hitabreytingarnar hérna ættu að búa mig undir hitastigið heima.  Þetta er ekki meint sem móðgun, heldur er ég að æfa mig í Pollýönnu leik.

 


Geiri á afmæli í dag!

ammæliGeiri bróðursonur í Kína á afmæli í dag.  Til hamingju með daginn kallinn minn og njóttu hans vel.

Ég bætti þessari köku við, vonandi sérðu þér fært að fá þér eitthvað gott í gogginn til að halda upp á daginn. Heart


Myndarlegt

Washington 5 week 003Við skulum nú sjá, frá vinstri eru: Agota frá Ungverjalandi, Beata frá Póllandi, Andrea frá Hondúras og yðar einlæg í einu matarboðinu í - the community room -

 

 

 

 

Washington 5 week 004Í þetta skiptið voru það Flavio frá Ginea-Bissau og Jacinto frá Mósambik sem elduðu.

 

 

 

 

 

Washington 5 week 005Matur!  Andrea frá Ítalíu, Goga frá Georgíu, yðar einlæg, Petar frá Makedóníu, Francis frá Malaví, Andrea frá Hondúras, Jacinto frá Mósambik, Beata frá Póllandi, Agota frá Ungverjalandi, Sargis frá Armeníu og síðast en ekki síst eru það foreldrar Otco: Ville og Emmi frá Finnlandi, fremst til hægri.

 

 

 

Washington 5 week 009Aunt Anna & Uncle Don í New Jersey

 

 

 

 

 

Washington 5 week 010Að sjálfsögðu var sest að snæðingi hjá Önnu og Don

 

 

 

 

 

Washington 5 week 014Svo hittumst við frænkurnar og fengum okkur mat á Tyrkneskum stað í Washington: Guffa, yðar einlæg, Gulla og Leyla

 

 

 

 

Washington 5 week 020Jana kom í heimsókn, frá Michigan

 

 

 

 

 

Washington 5 week 021Flugdrekar á fyrsta degi Cherry-blossom Festival

 

 

 

 

 

Washington 5 week 023Washington 5 week 025Cherry-blossoms

 

 

 

 

 

Washington 5 week 029Þarna var ég að reyna að styðja við Jefferson-Memorial

 

 

 

 

 

Washington 5 week 033

Í National Gallery: Jana kom frá Michigan, yðar einlæg, Sargis frá Armeníu, Andrea frá Ítalíu, Agota frá Ungverjalandi og Andrea frá Hondúras.

 

 

 

 

Washington 5 week 034Að leika fána fyrir framan Washington Memorial: Agota frá Ungverjalandi, Andrea frá Hondúras, Andrea frá Ítalíu, yðar einlæg og Beata frá Póllandi

 

 

 

 

Washington 5 week 038Meira af Cherry-Blossoms

 

 

 

 

 


Út að borða

Washington - New York,  March 2007 017Nú er farið að kólna í veðri, ekki nema 14°C í dag og frekar kalt í morgun þegar ég lagði af stað til IMF.  Jæja, ég tók bara kaffibollann með mér og vafði pasmínunni þétt að mér og arkaði af stað.  Fékk þessa fínu pasmínu í jólagjöf frá Nonna og Fríðu og hún hefur algerlega bjargað mér.  Takk fyrir það kæri bróðir og mágkona.

 

Þessa stundina er ég að bíða eftir því að Gulla frænka sæki mig.  Fyrst ætlar hún að sækja Guffu frænku á Reagan flugvöllinn en hún er að koma í heimsókn frá Hollandi.  Við höfum ekki sést frænkurnar um langa hríð, svo það var ákveðið að eftir “upptöku” á Regan að þær tvær kæmu til mín, ég gerð upptæk líka og að við myndum allar þrjár fara og fá okkur bita saman.  Gaman, gaman.


Meiri myndir

Washington - New York,  March 2007 001Ekki amalegt þegar svona fjallmyndarlegir menn elda ofan í mann. 

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 009Allraþjóðakvikindahópurinn sem heldur mest saman kominn í sparifötinn, því nú átti að mynda hópinn.  Þarna eru líka a.m.k. 2 fyrirlesarar: Betty Gruber og Sage le Clerc.

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 018Snjór á Broadway.  Nei, það er ekki nafn á stykki sem verið er að setja upp, heldur var Brodway svona í raun og sann.

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 021Hópurinn við Central Park 17. mars á leið að St. Patricks skrúðgöngunni.

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 027Skrúðganga!

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 029

Útsýnið úr MOMA (Museum of Modern Art)

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 050Skautasvellið við Rockerfeller Center.

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 051Nautið fyrir utan Verðbréfahöllina (Stock Exchange) í New York.  Bull market gefur til kynna að hlutabréf á markaði séu á uppleið.

 

 

 


Yndislegt, yndislegt, yndislegt.

Yndislegt, yndislegt, yndislegt veður.  Nú er klukkan 18:00 að staðartíma og hitinn? Jú, 28°C – ég legg ekki meira á ykkur!  Að vísu hef ég þurft að húka inni í allan dag, fyrir utan hádegisverðarhléð en samt sem áður: frábært veður. 

 

AIMAf atburðum helgarinnar er það að frétta að við fórum nokkur og skoðuðum American Indian Museum s.l. laugardag en stoppuðum ekki lengi við þar, því ætlunin var að fara í Potomac Mills, sem er „mall“ eða verslanamiðstöð.  Það skipti engum togum, við eyddum 6 klukkustundum þar.  Ekki spyrja mig hvernig það er hægt, það gerðist bara.  Við vorum náttúrulega að stunda helsta sport bandaríkjamanna; að versla.  Jú, jú, þegar upp var staðið hafði ég viðað að mér 3 pilsum, bol, ilmvatni, skóm og helling af undirfötum, svo ég get ekki annað en verið ánægð með árangurinn.  Sjoppingspríið tók svo mikið á, að ekkert var farið á djammið á laugardagskvöldinu.

 

Hins vegar komu Olga og J.B. eldsnemma á sunnudagsmorguninn til að taka mig með sér til Önnu frænku í New Jersey.  Þangað er 3ja tíma akstur, svo það borgaði sig að leggja snemma af stað.  Ferðin gekk vel og við komum á áfangastað á hádegi.  Á slaginu.  Anna og Don voru afar glöð að sjá okkur og drifu okkur að matarborðinu en Anna hafði verið búin að skipuleggja matarinnkaup í langan tíma, vegna þessa viðburðar; að við kæmum í heimsókn.  Hins vegar hafði Don beðið með óþreyju eftir kleinunum hennar Olgu Dísar og leyfði engum að koma nálægt þeim, nema mér.  Ég mátti fá 2.  Þetta er svona einkadjók hjá þeim „feðginunum“ að hún verður að greiða aðgangseyri – í kleinum.  Honum þykja þær svo góðar.  Við vorum í góðu yfirlæti hjá þeim Önnu og Don.  Síðdegis komu Móa og Ken til að borða með okkur tiramisukvöldmat en þær eru mæðgur Móa og Anna og þær skiptast á að vera í mat hvor hjá annari, á sunnudögum.  Móa og Ken komu með myndir úr brúðkaupi Brian sonar þeirra, sem átti sér stað í Danmörku í fyrra, þegar hann kvæntist henni Mettu sinni.  Jæja, eru allir komnir með nóg af ættfræði?  Þetta var mjög skemmtilegur dagur, alltaf gaman að hitta hresst fólk, sem hefur gaman af að segja frá skemmtilegum atburðum.

 

Þegar heim kom upp úr tíu, tók ég eftir að gemsinn minn hafði orðið eftir í bílnum hjá Olgu og J.B.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég hringdi í ofboði í þau hjónakornin.  Það vildi svo heppilega til að þau voru ekki komin langt frá hótelinu, svo þau gerðu sér lítið fyrir og snéru við, til að ég yrði ekki símalaus.  Sjúkk.........

 

ísAllraþjóðakvikindahópurinn boðaði mig síðan í eitt herbergið, sem við erum farin að kalla „the community room“ til að borða ís og horfa á bíómynd.

 

Semsagt; afar vel heppnuð helgi.


Adam's Morgan

Fórum aftur í Adam’s Morgan hverfið í gærkvöld.  Það var eins og við mannin mælt: ægilega gaman, mikið fjör, - ekki skemmdi að ég fékk kennslu í Salsa-dansi.  Gamla konan er orðin svo slitin að ég (og nokkrir aðrir skynsamir einstaklingar) fór heim um miðnætti en hin héldu eitthvað áfram fram eftir nóttu.  Upplitið á þeim var ekki djarft í morgun þegar þau síðarnefndu mættu í tíma.  Sum þeirra eiga meira að segja að halda kynningu á landi sínu síðar í dag!  

Fyrirhugaður er sameiginlegur kvöldverður sem verður reiddur fram af afríkubúum frá Gíneu Bissau og Mósambik.  Það verður ábyggilega afar áhugavert, svo ekki sé meira sagt.

Vegna sprengingarinnar í Mósambik var einnar mínútu þögn í okkar hópi í morgun.  72 manneskjur létust og eitthvað á annað hundrað liggja á spítala.........................

Samgenetískir kvenhormónar?

pentagon cityFullt af kvenlegum og samgenetískum hormónum flæddu upp um alla veggi í kvöld.  Þannig var nefnilega mál með vexti að við frænkurnar Gulla, Olga Dís og Sigrún Olgu-Dísardóttir höfðum mælt okkur mót í Pentagon City eftir „vinnu“ hjá mér.  Ég varð samferða allraþjóðakvikindahópnum í neðanjarðarlestinni (bláu línunni) og sá ekki meira af þeim, eftir að ég var komin inn í Mall-ið, því ég heyrði kallað nafnið mitt eiginlega um leið og ég var komin inn.  Það skipti engum togum að við frænkurnar féllumst þarna í faðma og þegar fagnaðarlátunum lauk loks, var ákveðið að yfirgefa svæðið og finna veitingastað á sem skemmstum tíma.  Sigrúnu frænku minni, sem ég var að hitta í fyrsta skipti á æfinni, varð á orði: „this is the shortest shopping spree I’ve ever seen“ og við hinar vorum sammála en kosturinn var, að við höfðum ekki eytt einu centi í þessu gleraugusjoppingspríi.  Nema hvað, við fórum sem leið lá til Costco til að ná í gleraugun, sem ég pantaði í síðustu viku.  Nú er ég semsagt stoltur eigandi og handhafi að tvennum nýjum gleraugum; öðrum með brúnum umgjörðum, hinum með rauðum og bleikum.  Þau síðarnefndu eru Dolce & Gabbana svo ég er ábyggilega alger pæja.  Þetta er nú bara pjatt og nokkurskonar skartgripir, því ég þarf í mesta lagi að nota annan hvorn þessara gripa við lestur.  Verðið á þessu var eins og verð á einum umgjörðum heima á Fróni.  Veitingastaðurinn California Pizza Chicken var áfangastaður okkar frænknanna og þar sátum við í góðu yfirlæti, rifjandi upp gamla tíma og útskýra fjölskyldulífið fyrir Sigrúnu, sem fékk ekki að upplifa það sama og við hinar, þar sem hún hefur búið í Bandaríkjunum frá 5 ára aldri.  Mikið hlegið og gantast (og borðað en förum ekki nánar út í það).

Útstáelsi á þriðjudagskvöldi

magadansÍ gærkvöldi fundum við þennan líka skemmtilega stað í Adam’s Morgan hverfinu.  Upphaflega áætlunin var að heimsækja jazz-klúbb sem ítalinn fann í Lonely-planet bókinni sinni en þegar þangað var komið, kom í ljós að staðurinn var lokaður og hafði ábyggilega verið lengi (sýnir að ekki er alltaf að marka leiðsögubækur).  Hvað um það, þarna var indælis úrval af skemmtistöðum, svo við völdum bara þann næsta sem reyndist vera tyrkneskur.  Þetta var ekki leiðinlegur staður, því þarna var hægt að fá sér snúning og við notfærðum okkur það óspart.  “Við” lesist: allraþjóðakvikindahópurinn.  Okkur þótti það ekki leiðinlegt að þarna er dagskrá á næstum hverju kvöldi; tangó á mánudögum, á þriðjudögum er hægt að kaupa léttvín á hálfvirði, á fimmtudögum er salsa og á föstudögum magadans.  Síðan er kennsla í magadansi á sunnudögum..................


Venjulegur dagur

iPodVenjulegur dagur í Washington, nú er klukkan að verða 8 að kvöldi og hitinn er 11°C.  Fór í Best buy og sá að 8Gb iPod Nano er á USD 245,99 – gott eða hvað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband