Færsluflokkur: Bloggar

Tilviljun? Hver veit?

konurStundum er eins og eitthvað eitt gerist endurtekið sama daginn.  Leyfið mér að útskýra; í mínu lífi kemur fremur reglulega dagurinn sem ég kalla „hringjum í Guðrúnu dagurinn“.  Á þeim degi gerist það að allskonar fólk hringir í mig, allt frá góðum vinum upp í fólk sem ég þekki lítið sem ekkert, fólk sem ég er í reglulegu sambandi við eða sem ég heyri örsjaldan í.

 

konur2Í gær var „konudagurinn“ hjá mér, þó hann sé í dag, skv. almanakinu.  Það var ekki venjulegur konudagur, heldur „látum Guðrúnu hitta konurnar sem eru náskyldastar henni dagurinn“.  Mig rekur ekki minni til að svoleiðis dagur hafi komið áður, nema ef einhver hafi tekið sig til og haldið einhverskonar boð.  Ekkert slíkt boð var í gær, nei, nei, dagurinn byrjaði á því að við systurnar fórum í verslunarleiðangur fyrir hádegi. Afraksturinn: enginn.  Eftir hádegi var ég svo bara eitthvað að dingla mér hérna heima þegar Edda systurdóttir hringdi til að athuga hvort ég væri heima, þau Ási ætluðu að líta við, sem þau og gerðu.  Ægilega gaman að fá þau í heimsókn, Ási hefur t.d. aldrei kíkt við áður.  Við spjölluðum um ýmislegt yfir tebolla og snúðum á meðan Eldur, chihuahua hundurinn þeirra var í könnunarleiðangri um íbúðina.  Edda hefur ekki komið síðan ég átti afmæli s.l. vor.  Jæja, þegar þau fóru datt mér í hug að kíkja á handleggsbrotna móður mína í Keflavík og hringdi í hana til að athuga hvort bollurhana vantaði eitthvað.  „Bollur og rjóma“ var svarið.  Til að ná í vistirnar skrapp ég í Hagkaup og gekk beint í flasið á Völu bróðurdóttur, sem ég hef ekki séð síðan um jól.  Eftir að hafa spjallað smávegis, benti Vala mér á, að Soffía systir hennar væri að vinna í snyrtivörudeildinni, svo við færðum okkur þangað og spjölluðum enn meira.  Þegar upp var staðið hafði ég hitt þær konur sem eru náskyldastar mér í þremur ættliðum; mömmu, einustu systur mína og systkinadæturnar þrjár, allar sama daginn.  Sumt af „hittingnum“ var undirbúið, annað ekki.  Tilviljun?  Hver veit?

Gleðilegan konudag.


Ferðaáætlun

boston legalNú er ljóst að ferð mín til Washington verður „fyrir alvöru“.  Ég fékk farmiðann í hendur í gær.  Jamm.  Hann hljóðar upp á flug til Boston, (skipti þar um flugstöðvarbyggingu,) flug til Duelles í Washington, sex vikur líða, þá flug frá Baltimore og heim.  Lendi í Keflavík að morgni annars í páskum.

 

Biðtíminn í Boston er þrír tímar.  Það hlýtur að vera nægur tími til að fara í gegnum tollinn, ná í farangurinn, finna flugstöðvarbyggingu C en þaðan er flugið til Duelles-flugvallar í Washington, skrá sig í flugið og fá sér eitthvað í gogginn.

 

washingtonSem betur fer gengur „shuttle bus“ númer 11 milli bygginga B (þar sem ég lendi) og C á 8 – 12 mínútna fresti á tímanum frá kl. 4 eftir miðnætti til kl. 1 eftir miðnætti.  Stoppistöð er á „lower baggage claim“ í hverri flugstöðvarbyggingu.  Ég ætti að ná auðveldlega í svona „shuttle bus“ . 

 

Kannski þessar upplýsingar komi einhverjum lesandanum vel einhverntíma í framtíðinni.

 

Ekki meira í bili, Edda og Ási eru að hringja á dyrabjöllunni.


Menningin

teremMenningarklúbburinn gerði sér lítið fyrir í gær og fór í Salinn í Kópavogi til að hlusta á Terem-kvartettinn og Diddú.  Það var sko tíma vel verið.  Til útskýringar vitna ég hér í kynningu á kvartettinum sem ég fann á heimasíðu Salarins.  „Á efnisskrá kvartettsins er á þriðja hundrað tónverka, allt frá umskrifunum fyrir breytta hljóðfæraskipan til þversagnakenndra fantasía sem byggðar eru á þekktum stefjum eftir Bach, Mozart, Rossini, Bizet, Piazzolla, Rota, Rimsky-Korsakoff, Tchaikovsky og fleiri. En þótt hópurinn viði að sér tónlist úr ýmsum áttum breytist hún í meðhöndlun þeirra og talar til manns tærri, rússneskri röddu. Með þessum hætti verða þeir sem Terem-kvartettinn skipa meira en aðeins tónlistarmenn. Þeir færa fólki gleði, ást og eftirvæntingu um þau meistaraverk sem í vændum eru.“  Tónleikarnir verða endurteknir í kvöld og ef það er enn hægt að fá miða, þá mæli ég með því að þú lesandi góður krækir þér í einn.

 

Málinu reddað!

flugMálinu hefur verið reddað.  Þessi dásamlegi póstur barst rétt í þessu frá Olgu frænku:  Ég ætla bara að koma og sækja þig og svo verður þú bara nóttina hjá okkur og ég fer svo með þig niður á hótel á sunnudaginn. Líst þér ekki bara vel á það?  aðeins seinna kom þetta: „.......og svo kemur þú auðvitað með á Þorrablótið!!!!!!!  Það verður þorrablót hjá Íslendingafélaginu á meðan ég verð í Washington og mér er boðið!  Ekki nóg með það, ég get lent áhyggjulaus í borginni seint að kvöldi laugardags (kl. 22:33), þarf ekki að leita að leigubíl, hóteli eða einu eða neinu.  Verð bara sótt.  Ljómandi, svo ég noti orðið sem Steingerður kynntist að nýju í gærkvöldi.  Aldeilis ljómandi.

Runólfur Mergjaði

„Einkennilegt“ hef ég hugsað þegar ég gef stefnuljós til vinstri.  „Af hverju er slátturinn í stefnuljósinu miklu hraðari þegar ég þarf að taka vinstri beygju en þegar ég vil fara til hægri?“  Runólfur Mergjaði (Renault Megane) fór nefnilega á verkstæði fyrir nokkru og það var skipt um háspennukefli í honum blessuðum.  Lætin í vinstra stefnuljósinu hófust eftir það.  „Það hefur farið eitthvað úrskeiðis þegar gert var við bílinn.“ hugsaði ég.  „Gat nú verið.“  Á þessa leið voru hugsanir mínar í rúma viku, í hvert skipti sem ég beygði til vinstri. 

 

RunólfurÞað var ekki fyrr en ég skrapp í Birtíng og skilaði lánsbókum til Gurríar að mér hugkvæmdist að koma við hjá umboðinu og benda starfsfólkinu þar á að eitthvað hafi nú ekki farið eins og til var ætlast í lagfæringunni um daginn.  Eins og alkunna er, þá vinnur hún rétt hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum.  Ég dreif mig þangað og króaði góðlegan verkstæðismann af, dró hann út í bíl, svo hann gæti heyrt þessi ósköp með eigin eyrum og jafnframt það að um stóralvarlegt mál væri að ræða.

 

„Það er farin pera í stefnuljósinu vinstramegin að framan.  Hefur ekkert að gera með viðgerðina um daginn“ var úrskurðurinn.  Ok, það var semsagt ekki bíla-krabbamein eða eitthvað þaðan af verra sem gekk að blessuðum bílnum en mér leið samt eins og ég væri voða ljóshærð.

 

einsteinNB.  Í mínum huga getur það komið fyrir fólk með hinn aðskiljanlegasta háralit að vera ljóshærð(ur).   Sjálf er ég „brunette“.


Lífsspeki

esherStundum rekst ég á eitthvað sem mér finnst svo sniðugt og langar til að deila með fleirum t.d. þetta:

 

Það eru tveir dagar í hverri viku sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af, tveir dagar sem ættu að vera lausir við áhyggjur og kvíða.

Annar er gærdagurinn með öllum sínum mistökum, kvíða, göllum, glappaskotum og verkjum.  Gærdagurinn er liðinn og kemur aldrei aftur og við höfum ekki yfirráð yfir honum lengur.  Sama hversu hátt verð við erum ert tilbúin að greiða fyrir það.  Það er ekki hægt að bæta fyrir það sem gert var eða sagt.  Gærdagurinn er farinn. 

 

Hinn er morgundagurinn, með mögulegt andstreymi sitt, byrði, áheit, og vonda frammistöðu.  Morgundagurinn er líka utan yfirráðasvæðis okkar.  Á morgun kemur sólin upp, annað hvort með glæsibrag eða á bak við ský.  Hvort sem er, þá kemur hún upp. Þangað til eigum við ekkert í morgundeginum, hann er ófæddur ennþá.  Þá er einungis einn dagur eftir: dagurinn í dag.

 

blómHver sem er getur barist í eins dags bardaga.  Það er bara þegar við bætum við byrðum þessara tveggja óbærilegu eilífða; gærdagsins og morgundagsins, að við brotnum.  Það er ekki reynsla dagsins í dag sem gerir okkur brjáluð, það er samviskubit og biturð vegna þess sem gerðist í gær og kvíðinn fyrir því sem morgundagurinn ber í skauti sér.  Þar af leiðandi skulum við lifa þennan dag í dag til hins ýtrasta.


Morgunstemming

tesopinnKomin inn eftir góðan göngutúr.  Svei mér ef það er ekki allra meina bót að drífa sig í útigallann, skella á sig góðum skóm og vaða út.  Þramma þetta stefnulaust með sína þungu þanka.  Áður en langt um líður er brúnin farin að léttast, sólin að hækka á lofti, skín á húsgaflana sem snúa í suðaustur, hitinn við frostmark, allt eitthvað svo ferskt.  Göngugarpurinn réttir úr sér við að dást að umhverfinu, fáir á ferli, þó er einn og einn útivið í sama tilgangi og undirrituð.  Gott að setjast við tjörnina og kíkja á endur og gæsir, nokkrir svanir eru þarna líka.  Hópurinn syndir í átt til mín og heldur að ég láti brauðbita af hendi rakna en ég býð ekki upp á neitt, tók ekkert með mér.

 

freyðibaðEftir rúmlega klukkutíma útiveru er ég komin inn, með rjúkandi tebolla við höndina,  freyðibaðið alveg að verða tilbúið og Creadence Clearwater Survival á fóninum.

 

Gleðilegan sunnudag öllsömul.


Góður

AnthonyÍ þeim tilgangi að ná því að skella inn a.m.k. einni blogg-færslu á dag, langar mig að segja þetta:  Mér finnst Anthony Hopkins aldeilis frábær leikari!

Hækkandi sól

birtanbirtaMikið er þetta yndislegur tími; þessi tími þegar birtan eykst dag frá degi.  Hann fyllir mig alltaf einhverri sérstakri ánægjutilfinningu og eftirvæntingu; eins og ég hafi fengið vítamínssprautu.  Það er einhvern veginn allt að vakna til lífsins.  Ég get ekki varist þeirri hugsun að hálfvorkenna þeim sem búa á suðlægari slóðum, hvað þetta varðar.  Þeir missa af ánægjunni af því að fylgjast með hvernig dagurinn lengist og fjörið færist í umhverfið.  Greyin.  Það er ekki hægt annað en að vorkenna þeim sem hafa ekki upplifað þessa tilfinningu.  Ætli það sé hægt að lýsa henni fyrir einhverjum sem býr við miðbaug og það að allir dagar ársins eru jafnlangir?  Engin tilbreyting.  Dagar eins og þessi í dag, spilla svo sannarlega ekki ánægjunni (splitta ekki stuðinu – eins og maður segir).  Sól, logn og föstudagur, er hægt að hafa það betra?  Gluggaveður náttúrulega, hitinn við frostmark en flott engu að síður.

 

Svo er Aðalgeir bróðursonur að koma heim frá Danmörku í kvöld, sá held ég að sé ánægður með daginn.  Velkominn heim kallinn minn.

 

voriðTilfinningasemi dagsins var í boði Guðrúnar.


Magnað

maturMér finnst það alveg magnað hvað það eru margir leggast á eitt við að aðstoða mig við að afla allskonar upplýsinga sem ég hef þörf fyrir vegna væntanlegrar utanferðar.  Bloggvinir og aðrir vinir.  Til viðbótar við upplýsingarnar sem ég fékk frá Guðmundi bloggara í gær hefur mér borist langur listi af veitingahúsum (ásamt meðmælum) og söfnum (ásamt lýsingu). Magnað.  Mér býðst jafnvel leiðsögn um Washington.  Hún mun vera í boði einhverra innfæddra vina hans Þorkels systursonar.  Hver veit nema ég nýti mér það kostaboð?  Ég sé fram á, að ég hafi ekki nokkurn tíma til að sinna verkefninu sem mér er ætlað.  

 

brosandiEkki misskilja mig, þetta er ekki kvörtun.  Öll þessi aðstoð kemur mér bara svo skemmtilega á óvart.  Sendi þeim innilegar þakkir, sem hafa aflað þessara upplýsinga fyrir mig.  Til að launa greiðan mun ég blogga ótæpilega um allt sem fyrir ber og rúmlega það.  Það er ykkar að velja það úr, sem þíð hafið áhuga á.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband