Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Út að borða

Washington - New York,  March 2007 017Nú er farið að kólna í veðri, ekki nema 14°C í dag og frekar kalt í morgun þegar ég lagði af stað til IMF.  Jæja, ég tók bara kaffibollann með mér og vafði pasmínunni þétt að mér og arkaði af stað.  Fékk þessa fínu pasmínu í jólagjöf frá Nonna og Fríðu og hún hefur algerlega bjargað mér.  Takk fyrir það kæri bróðir og mágkona.

 

Þessa stundina er ég að bíða eftir því að Gulla frænka sæki mig.  Fyrst ætlar hún að sækja Guffu frænku á Reagan flugvöllinn en hún er að koma í heimsókn frá Hollandi.  Við höfum ekki sést frænkurnar um langa hríð, svo það var ákveðið að eftir “upptöku” á Regan að þær tvær kæmu til mín, ég gerð upptæk líka og að við myndum allar þrjár fara og fá okkur bita saman.  Gaman, gaman.


Meiri myndir

Washington - New York,  March 2007 001Ekki amalegt þegar svona fjallmyndarlegir menn elda ofan í mann. 

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 009Allraþjóðakvikindahópurinn sem heldur mest saman kominn í sparifötinn, því nú átti að mynda hópinn.  Þarna eru líka a.m.k. 2 fyrirlesarar: Betty Gruber og Sage le Clerc.

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 018Snjór á Broadway.  Nei, það er ekki nafn á stykki sem verið er að setja upp, heldur var Brodway svona í raun og sann.

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 021Hópurinn við Central Park 17. mars á leið að St. Patricks skrúðgöngunni.

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 027Skrúðganga!

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 029

Útsýnið úr MOMA (Museum of Modern Art)

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 050Skautasvellið við Rockerfeller Center.

 

 

 

 

 

Washington - New York,  March 2007 051Nautið fyrir utan Verðbréfahöllina (Stock Exchange) í New York.  Bull market gefur til kynna að hlutabréf á markaði séu á uppleið.

 

 

 


Yndislegt, yndislegt, yndislegt.

Yndislegt, yndislegt, yndislegt veður.  Nú er klukkan 18:00 að staðartíma og hitinn? Jú, 28°C – ég legg ekki meira á ykkur!  Að vísu hef ég þurft að húka inni í allan dag, fyrir utan hádegisverðarhléð en samt sem áður: frábært veður. 

 

AIMAf atburðum helgarinnar er það að frétta að við fórum nokkur og skoðuðum American Indian Museum s.l. laugardag en stoppuðum ekki lengi við þar, því ætlunin var að fara í Potomac Mills, sem er „mall“ eða verslanamiðstöð.  Það skipti engum togum, við eyddum 6 klukkustundum þar.  Ekki spyrja mig hvernig það er hægt, það gerðist bara.  Við vorum náttúrulega að stunda helsta sport bandaríkjamanna; að versla.  Jú, jú, þegar upp var staðið hafði ég viðað að mér 3 pilsum, bol, ilmvatni, skóm og helling af undirfötum, svo ég get ekki annað en verið ánægð með árangurinn.  Sjoppingspríið tók svo mikið á, að ekkert var farið á djammið á laugardagskvöldinu.

 

Hins vegar komu Olga og J.B. eldsnemma á sunnudagsmorguninn til að taka mig með sér til Önnu frænku í New Jersey.  Þangað er 3ja tíma akstur, svo það borgaði sig að leggja snemma af stað.  Ferðin gekk vel og við komum á áfangastað á hádegi.  Á slaginu.  Anna og Don voru afar glöð að sjá okkur og drifu okkur að matarborðinu en Anna hafði verið búin að skipuleggja matarinnkaup í langan tíma, vegna þessa viðburðar; að við kæmum í heimsókn.  Hins vegar hafði Don beðið með óþreyju eftir kleinunum hennar Olgu Dísar og leyfði engum að koma nálægt þeim, nema mér.  Ég mátti fá 2.  Þetta er svona einkadjók hjá þeim „feðginunum“ að hún verður að greiða aðgangseyri – í kleinum.  Honum þykja þær svo góðar.  Við vorum í góðu yfirlæti hjá þeim Önnu og Don.  Síðdegis komu Móa og Ken til að borða með okkur tiramisukvöldmat en þær eru mæðgur Móa og Anna og þær skiptast á að vera í mat hvor hjá annari, á sunnudögum.  Móa og Ken komu með myndir úr brúðkaupi Brian sonar þeirra, sem átti sér stað í Danmörku í fyrra, þegar hann kvæntist henni Mettu sinni.  Jæja, eru allir komnir með nóg af ættfræði?  Þetta var mjög skemmtilegur dagur, alltaf gaman að hitta hresst fólk, sem hefur gaman af að segja frá skemmtilegum atburðum.

 

Þegar heim kom upp úr tíu, tók ég eftir að gemsinn minn hafði orðið eftir í bílnum hjá Olgu og J.B.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég hringdi í ofboði í þau hjónakornin.  Það vildi svo heppilega til að þau voru ekki komin langt frá hótelinu, svo þau gerðu sér lítið fyrir og snéru við, til að ég yrði ekki símalaus.  Sjúkk.........

 

ísAllraþjóðakvikindahópurinn boðaði mig síðan í eitt herbergið, sem við erum farin að kalla „the community room“ til að borða ís og horfa á bíómynd.

 

Semsagt; afar vel heppnuð helgi.


Adam's Morgan

Fórum aftur í Adam’s Morgan hverfið í gærkvöld.  Það var eins og við mannin mælt: ægilega gaman, mikið fjör, - ekki skemmdi að ég fékk kennslu í Salsa-dansi.  Gamla konan er orðin svo slitin að ég (og nokkrir aðrir skynsamir einstaklingar) fór heim um miðnætti en hin héldu eitthvað áfram fram eftir nóttu.  Upplitið á þeim var ekki djarft í morgun þegar þau síðarnefndu mættu í tíma.  Sum þeirra eiga meira að segja að halda kynningu á landi sínu síðar í dag!  

Fyrirhugaður er sameiginlegur kvöldverður sem verður reiddur fram af afríkubúum frá Gíneu Bissau og Mósambik.  Það verður ábyggilega afar áhugavert, svo ekki sé meira sagt.

Vegna sprengingarinnar í Mósambik var einnar mínútu þögn í okkar hópi í morgun.  72 manneskjur létust og eitthvað á annað hundrað liggja á spítala.........................

Samgenetískir kvenhormónar?

pentagon cityFullt af kvenlegum og samgenetískum hormónum flæddu upp um alla veggi í kvöld.  Þannig var nefnilega mál með vexti að við frænkurnar Gulla, Olga Dís og Sigrún Olgu-Dísardóttir höfðum mælt okkur mót í Pentagon City eftir „vinnu“ hjá mér.  Ég varð samferða allraþjóðakvikindahópnum í neðanjarðarlestinni (bláu línunni) og sá ekki meira af þeim, eftir að ég var komin inn í Mall-ið, því ég heyrði kallað nafnið mitt eiginlega um leið og ég var komin inn.  Það skipti engum togum að við frænkurnar féllumst þarna í faðma og þegar fagnaðarlátunum lauk loks, var ákveðið að yfirgefa svæðið og finna veitingastað á sem skemmstum tíma.  Sigrúnu frænku minni, sem ég var að hitta í fyrsta skipti á æfinni, varð á orði: „this is the shortest shopping spree I’ve ever seen“ og við hinar vorum sammála en kosturinn var, að við höfðum ekki eytt einu centi í þessu gleraugusjoppingspríi.  Nema hvað, við fórum sem leið lá til Costco til að ná í gleraugun, sem ég pantaði í síðustu viku.  Nú er ég semsagt stoltur eigandi og handhafi að tvennum nýjum gleraugum; öðrum með brúnum umgjörðum, hinum með rauðum og bleikum.  Þau síðarnefndu eru Dolce & Gabbana svo ég er ábyggilega alger pæja.  Þetta er nú bara pjatt og nokkurskonar skartgripir, því ég þarf í mesta lagi að nota annan hvorn þessara gripa við lestur.  Verðið á þessu var eins og verð á einum umgjörðum heima á Fróni.  Veitingastaðurinn California Pizza Chicken var áfangastaður okkar frænknanna og þar sátum við í góðu yfirlæti, rifjandi upp gamla tíma og útskýra fjölskyldulífið fyrir Sigrúnu, sem fékk ekki að upplifa það sama og við hinar, þar sem hún hefur búið í Bandaríkjunum frá 5 ára aldri.  Mikið hlegið og gantast (og borðað en förum ekki nánar út í það).

Útstáelsi á þriðjudagskvöldi

magadansÍ gærkvöldi fundum við þennan líka skemmtilega stað í Adam’s Morgan hverfinu.  Upphaflega áætlunin var að heimsækja jazz-klúbb sem ítalinn fann í Lonely-planet bókinni sinni en þegar þangað var komið, kom í ljós að staðurinn var lokaður og hafði ábyggilega verið lengi (sýnir að ekki er alltaf að marka leiðsögubækur).  Hvað um það, þarna var indælis úrval af skemmtistöðum, svo við völdum bara þann næsta sem reyndist vera tyrkneskur.  Þetta var ekki leiðinlegur staður, því þarna var hægt að fá sér snúning og við notfærðum okkur það óspart.  “Við” lesist: allraþjóðakvikindahópurinn.  Okkur þótti það ekki leiðinlegt að þarna er dagskrá á næstum hverju kvöldi; tangó á mánudögum, á þriðjudögum er hægt að kaupa léttvín á hálfvirði, á fimmtudögum er salsa og á föstudögum magadans.  Síðan er kennsla í magadansi á sunnudögum..................


Venjulegur dagur

iPodVenjulegur dagur í Washington, nú er klukkan að verða 8 að kvöldi og hitinn er 11°C.  Fór í Best buy og sá að 8Gb iPod Nano er á USD 245,99 – gott eða hvað?


Ferðapistill frá New York

taxiJahérna, það snjóaði svo mikið s.l. föstudag að rútunni til New York seinkaði um 2 tíma!  Við hættum snemma á föstudaginn og tókum rútuna kl. 2 e.h. og áttum að vera í borginni upp úr kl. 6 en klukkan var orðin 8, þegar við náðum á endastöð.  Kuldinn var óvenjumikill þar sem við stóðum í lllaaannngggrrriii biðröð eftir leigubíl fyrir utan rútustöðina í borginni.  Bílarnir 3 sem við þurftum komu að lokum – eins og erist venjulega.  Brúnin lyftist heldur þegar komið var á hótelið, nýtt, snyrtilegt og vel staðsett í Upper-West-Side hverfinu.  Hópurinn dreif í að tékka sig inn, kíkja á herbergin og dreif sig svo aftur út í snjókomuna og kuldann til að finna einhvern stað sem bauð upp á sæmilega næringu.  Fundum loks stað sem heitir Palm og er ekki langt frá Times Square.  Góður matur og ekki verri félagsskapur.

 

starbucksLaugardagsmorguninn hófst á því að fá sér morgunverð á Starbucks.  Þaðan var farið áleiðis að 5th Avenue því þar átti að vera árleg St. Patricks-skrúðganga, sem við ætluðum að sjá.  Borgin reyndist erfið yfirferðar sökum snjókrapa og vatnselgs en sannur ferðamaður lætur það ekki á sig fá.  Lögreglan hafði lokað mörgum “blokkum” meðfram 5th Avenue til að skrúðgangan kæmist sína leið óáreitt.  Á götum úti voru margir merktir græna litnum en það er venja á þessum degi sem er helgaður verndardýrðlingi Írlands; heilögum Patrek.  Leið okkar lá framhjá Central Park en sökum mannmergðar St Patrickskomumst við ekki hratt yfir.  Við vorum 4 úr allraþjóðakvikindahópnum sem ákváðum að fara í MOMA (Museum of Modern Art) og eyddum þar um 4 tímum.  MOMAÞegar inn var komið rakst ég á kunnuglegt andlit, vinnufélaga (Hauk) ásamt eiginkonunni.  Ítalanum, Hondúrasinum og Makedónanum fannst það stórmerkilegt að ég skyldi hitta íslendinga – aftur.  Hverjar eru líkurnar á því hjá 300.000 manna þjóð? spurðu þau sig en okkur íslendinum finnst það auðvitað ofureðlilegt að hitta hver annan í útlöndum.

 

Ég var í sambandi við Julie vinkonu mína frá Gamla Garðs tímabilinu og hún vildi endilega skipuleggja “hitting” og kvöldverð.  Úr varð að við hittumst á veitingastað við skautasvellið hjá Rocerfeller center.  Þaðan var haldið á kínverskan veitingastað, þar sem hópurinn fékk að kynnast Julie og eiginmanni hennar Jeremy og þau kynntust allraþjóðakvikindahópnum.  Voða gaman hjá okkur.  Um tíuleytið fórum við síðan í Greenwich village en mér leist nú ekki meira en svo á pleisið, á laugardagskvöldi þegar verið var að halda upp á St. Patricks Day.  Frekar villt og hefur maður þó séð ýmislegt í næturlífi Reykjavíkurborgar.  Það var því haldið heim á hótel frekar snemma á íslenskan mælikvarða.  Það var líka ískalt........

 

bullSunnudagurinn var tekinn snemma, með morgunverði á Starbucks.  Við sömu 4 og höfðum farið á MOMA, tókum neðanjarðarlestina alla leið til Wall Street.  Forgangsatriði var að sjá nautið sem er tákn fyrir verðbréfamarkað á uppleið og stendur fyrir framan verðbréfaþing þeirra New York búa.  Þar rétt hjá er hægt að sjá yfir til eyjarinnar þar sem Frelsisstyttan stendur.  Úff, hvað það var kalt þarna enda vorum við alveg niður við sjó.  Gengið var fram hjá staðnum þar sem World Trade Center stóð alveg til 11. september 2001.  Þar er enn hola í jörðinni og mér skildist á Julie að það stæðu pólítískar deilur um það, hvernig ætti að ganga frá staðnum.  Jæja, leið okkar lá um eftirtalin hverfi: Tribeca, Soho, Greenwich village, Little Italy, alla leið að Empire State byggingunni.  Þegar þangað var komið var kominn tími til að halda heim á hótel, ná í farangurinn og koma sér á rútustöðina.  Einhversstaðar á göngu okkar fundum við þennan fína veitingastað, þar sem spiluð var Bluegrass tónlist fyrir gesti.  Við vorum öll komin “heim”, heilu og höldnu, um ellefuleytið í gærkvöldi og vorum heldur framlág á námskeiðinu í morgun.  Hvort það var gaman að fara til New York?  Jahá en svakalega eru til háar byggingar! 

 

Hugleiðingar að westan

cherry-blossomÞað er ýmislegt sem er öðruvísi hér í Washington en heima á Íslandi.  Eitt af því sem ég hef tekið eftir er að mörg trjánna hérna eru vita lauflaus, þó það sé kominn miður mars og borgin staðsett á talsvert syðri breiddarbaug en Ísland.  Hvað um það, þegar ég var á leið í vinnuna í morgun tók ég eftir að eitt tréð í nágreinni hótelsins hafði tekið stakkaskiptum, það höfðu ekki komið lauf á það yfir nóttina, nei, heldur þessi fínu blóm!  Þarna var semsagt um að ræða kirsuberjatré í blóma.  Eftir því sem nær dró vinnunni, tók ég eftir fleiri þessara trjáa, alsett stórum hvít-bleikum blómum en ekki einu einasta laufblaði.  Það þarf náttúrulega ekki að geta þess, að þetta er dásamlega falleg og skemmtileg sjón.  Þessi breyting er rétt að byrja núna en gera má ráð fyrir að trén séu öll að færast í aukana og að innan tíðar verði borgin öll skreytt þessu fíneríi.

 

traffic-lightsAnnað sem mig langar að nefna eru götuljósin.  Hérna eru þau þannig stillt að á þeim er tímamælir sem segir til um hversu margar sekúndur eru eftir þar til rautt ljós kemur.  Tíminn sem gangandi vegfarandi hefur til að dratta sér klakklaust yfir götuna er semsagt talinn niður.  Voða sniðugt.  Það myndi kannski virka stressandi á einhverja en mér finnst þetta bara þægilegt.

 

Ég geri ráð fyrir að þessi borg sé nú ekki dæmigerð fyrir borg í Ameríku, ef einhver slík er þá til.  Hér eru jú allar stofnanir stjórnsýslunnar og margar alþjóðastofnanir.  Þetta leiðir af sér að hér eru allra þjóða kvikindi í orðsinis fyllstu merkingu.  Suðupottur allskonar strauma, má segja.  Mér dettur í hug að hér sé kannski meira umburðarlyndi milli kynþátta en annarsstaðar því vinnufélagar þínir gætu verið allstaðar að úr heiminum eða jafnvel bara fólkið sem þú sérð á vappi á götunum eða í búðum / veitingahúsum. 

 

hótelNú hefur ferðin til New York verið ákveðin.  Loksins.  Það verður haldið af stað á morgun kl. 14:00 (2 pm eins og Kaninn segir) með Greyhound áleiðis til borgarinnar sem aldrei sefur og gert ráð fyrir að ferðin taki 4 tíma og 50 mínútur.  Flestir af námskeiðinu ætla að fara, þ.á.m. einhverjir af fyrirlesurunum.  Við erum 12 sem verðum ferðafélagar og munum gista á sama hóteli.  Ég get ekki með nokkru móti munað hvað það heitir en það er á Upper East Side nálægt Central Park og Broadway.  On The Ave, minnir mig.  Lagt verður af stað „heim á leið“ á sunnudaginn kl. 18:00 (6 pm eins og Kaninn kallar það).  Sólarhringnum í Ameríku er skipt í tvo 12 tíma hluta en ekki einn 24 tíma eins og við eigum að venjast heima.  Ferðin verður að miklu leyti skipulögð á meðan við sitjum í rútunni á leiðinni þangað.  Ég hlakka náttúrulega ægilega mikið til enda reikna ég með því að nóg verði um að vera.

 

Ungverski fáninnNæsta matarboð verður í kvöld.  Já, í þetta skiptið er það sú Ungverska úr litla alþjóðlega hópnum mínum sem eldar.  Við fáum kjúkling, - aftur.  Já, já, það er alltaf hægt að borða kjúkling.  Matarboðið mitt heppnaðist vel s.l. þriðjudagskvöld.  Uppskriftin vakti gífurlega lukku og mikið þakklæti látið í ljós af gestum.  Þetta er voða sniðugt fyrirkomulag.  Þannig er að tveir úr klíkunni eru með stór samliggjandi herbergi.  Borðið og stólarnir úr öðru er flutt yfir í hitt, því það er bara 4 borðstofustólar í hverri íbúð.  Allt er nýtt, sem setpláss, gólfið ef ekki vill betur.  Samveran er það sem skiptir máli.


Veðurfar, New York og kjúklingaréttur - allt í sömu færslunni

Jahérna.  Það liggur við að ég segi að hér þurfi maður að vera við öllu búinn þegar veðrið er annarsvegar.  Í síðustu viku kvartaði ég mikið yfir kulda.  Nú ber allt annað við, því að í morgun áður en ég lagði af stað til IMF, kíkti ég á veðrið og þá var 5°C hiti og ég fór í peysu og yfirhöfn.  Svo þegar ég lagði af stað heim á leið (frekar snemma, þar sem minn hópur kláraði sitt verk á mettíma) gekk ég um á þunnri skyrtu því hitinn var um 20°C.  Engar áhyggjur, ég var ekki á skyrtunni einni saman heldur afar siðsamlega klædd og engum til skammar.

 

Enn er verið að undirbúa ferð til N.Y.  Ýmist er talað um að fara með rútu, lest eða flugi.  Ekkert hefur verið ákveðið en hvað verður svo sannarlega tilkynnt á þessum vettvangi.

 

kjúlliÍ kvöld er fyrirhugaður sameiginlegur kvöldverður; kjúklingur.  Uppskriftin:  Eldfast mót fyllt í botninn með niðursneiddum sætum kartöflum,  heill pakki af spínati ofan á það, þvínæst er kjúklingabringum raðað ofan á og saltað örlítið.  Fetaosti (og olíunni af honuum) sáldrað yfir allt saman.  Herlegheitunum er stungið inn í ofn í klukkutíma.  Snætt með góðu brauði.

 

Bon appetit!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband