Bloggfærslur mánaðarins, maí 2023

Stóra kóralrifið

20230522_172847Það mátti nánast finna fyrir spenningnum í ferðafélögunum í morgun, þegar safnast var saman í anddyri hótelsins til að verða samferða að Reef Fleet Terminal. Stundin var að nálgast, sú sem allir höfðu beðið eftir: nú skyldi stóra kóralrifið skoðað!

Fljótlega eftir að við vorum mætt til að skrá okkur inn, mætti skemmtiegur smávaxinn karl, Eddie, sem var alltaf að spauga um nánast allt sem honum datt í hug. Í ljós kom að hann var allt-í-öllu um borð og lagði okkur lífsreglurnar um hvað má og hvað má ekki í svona ferðum, hvernig ganga á um "blautu" svæðin annars vegar og þau "þurru" hinsvegar. Þegar upp var staðið var augljóst að Eddie vissi nákvæmlega hvað hann var að gera með öllu spauginu.

Ég get ekki annað en dáðst að því, hvernig haldið var utan um allt um borð: við skráningu fengu allir sitt númer (við höfðum nr. 1-14) en það auðveldaði allt utanumhald um farþegana, því ekki þurfti að kalla upp nöfn á einhverjun óskiljanlegum tungumálum, heldur bara númer viðkomandi og allir sáttir t.d. farþegar nr. 86, 87 og 88 sem ætluðu i þyrluflug, eru beðnir um að mæta á (tiltekinn stað)orca-image--1675573199

Þegar það var orðið ljóst að allar reglur hefðu komist til skila var siglt af stað. Við tók um 1,5 tíma sigling að "Norman Reef" og "Hastngs Reef" í misjafnlega úfnum sjó.

Ekki má kasta akkeri í rifið vegna verndunarsjónarmiða en skipið er fest við steypta stöpla, sem komið hefur verið fyrir. Hver og einn farþegi hafði þá þegar mátað sundfit, fengið snorkl-grímu (er til íslenskt orð yfir svoleiðis apparat) og fengið búning sem á að verja fyrir stingfiski. Allt þetta átti að geyma í hólfum með númeri viðkomandi. Það kom alltaf betur og betur í ljós hvað númerakerfið er sniðugt.

20230521_103046Allir, sem vettlingi gátu valdið eða frekar: allir sem treystu sér til, hentu sér í sjóinn, til að líta dýrðina undir yfirborðinu: allir mögulegir litir á fiskum í magskomar stærðum og gerðum, fyrir utan hin ótrúlegustu form og liti á kóröllunum sjálfum. Þvílíkt undur! Allir fengu þá leiðsögn sem þeir þurftu af þrautþjálfuðu starfsfólki.

barrier-reefÞegar fyrra rifið hafði verið skoðað, var haldið að hinu síðara en á meðan á stíminu stóð var borinn fram matur: fiskur, rækjur og grillað nautakjöt, fjórar tegundir af salati og annað eins af sósum. Skipulagið sannaði sig enn og aftur: hver og einn hafði sitt fasta sæti,  svo það hafði ekki verið neitt kapphlaup í  upphafi, til að tryggja sér besta sætið.

Það var ekkert síðra að skoða rifið á seinni áfangastaðnum en þar bættist við sá möguleiki að fara yfir í annað skip, sem er með hálfgerðum kafbáti undir þiljum. Sá er með gegnsæjum botni og veggjum, svo það er líka hægt að skoða herlegheitin með þeim hætti.

Á stíminu heim hjó báturinn veruega en enginn úr hópnum varð sjóveik(ur). Þá kom í ljós að fíflagangur Eddies gerði sitt gagn. Með honum fékk hann fólk til að gleyma vanlíðan sinni.

Eftir dásamlegan dag við rifið fór hópurinn í kvöldmat á Dundees by the Waterfront og það var engin(n) svikinn af því. Í ljós kom að ein úr hópnum átti afmæli. Hún fékk eftirrétt og söng af því tilefni.

 


Næsti áfangastaður: Cairns


20230520_122831~2Flugið til Cairns gekk vel og tók ekki nema 2,5 tíma. Við vorum komin á hótelið um kl. 11:00 en það stóð ekki til að afhenda okkur herbergin fyrr en kl. 15:00, svo það þurfti að brúa það bil. Farangrinum var komið i geymslu og flestir ákváðu að taka þátt í ferð sem kölluð er "Kuranda Skyrail & Scenic Rail Tour" og verður farin næsta mánudag 22. maí. Það verður spennandi og mælt hefur verið með þessari ferð við mig (takk Malla).

Það tók ekki langan tíma að panta ferðina en þegar við fréttum af markaði sem haldinn er hvern laugardag í Cairns, ákváðu nokkrir úr hópnum að kíkja á hann þ.á.m. sú sem þetta skrifar.  Markaðurinn er frekar hafðbundinn, föt, heimatilbúnir skartgripir, margskonar matur en það sem stóð upp úr voru ávextirnir, margar tegundir, í öllum hugsanlegum litum og glænýir.

20230520_121144Að lokinni skoðunarferðinni um markaðinn var haldið að Cairns Waterfront, sem er stórkostlegt svæði niðri á strönd "Cairns Esplanade Lagoon", Þarna er hægt að njóta þess að eyða tíma, smábátahöfninn í nokkura skrefa fjarlægð og "Reef Fleet Terminal" þaðan sem við tökum bátinn a morgun til að skoða "The Great Barrier Reef". Veitingastaðurinn Pier er líka á þessu svæði og við göngufélagarnir fengum okkur "Fish and Chips" hjá þeim.

Á göngu okkar heim á hótel eftir Esplanade hittum við ferðafélaga úr hópnum og fengum okkur ís. 

Skilaboð til einustu systur minnar: Í Cairns er gata sem heitir "Minnie Street", - geri aðrir betur.


Föstudags...

Dagurin byrjaði rólega, sem var gott því ég var úrinda eftir gærdaginn. Einungis tvö úr hópnum fóru í skipulagða ferð til Tiwi-eyja, sem boðið hafði verið upp á.

Seint og um síðir ákvað ég að kíkja aðeins á göngugötuna, því þetta var síðasti dagurinn í Darwin. Eftir huggulegan Brunch ákvað ég að kíkja í "Lundabúðir" eða kannski er hægt að kalla þær "Búðir með list frumbyggja" eða "Leðurhattabúðir". Þar kennir ýmissa grasa af hvorutveggja. Mér fannst skemmtilegra að fara á listasöfn með list frumbyggja, sem hefur sín sérkenni. Það hefði verið gaman að fjárfesta í mörgu af list þeirra en þar sem töskustærð er takmarkandi þáttur, keypti ég lítið listaverk, sem hægt er að rúlla upp og tekur lítið pláss í farangrinum.

20230519_125952Úr því að ég var komin í nálægð við þinghús Northern Territory, lá það beint við að fara þangað. Þá hafði stólum verið raðað fyrir framan aðalinnganginn, ræðuborði með míkrafóni hafði verið komið fyrir og ljósmyndarar höðu stillt sér upp. Einhver athöfn var ekki í uppsiglingu en var ekki byrjuð. Ég gaf mig á tal við starfsmann og spurði hvað væri á seyði. Hann svaraði en ég var engu nær. "Legacy Centenary Torch" var kominn til Darwin. Eftir því sem ég kemst næst var verið að minnast atburðar sem átti sér stað í stríðinu a.m.k. voru margir orðum skreyttir hermenn sem komu í skrúðgöngu inn á svæðið. Sá sem leiddi gönguna (óeinkennisklæddur) bar kyndil og kveikti eld með honum. Allt var þetta mjög hátíðlegt.20230519_132236

Afsakið að myndin er á hlið en ég kann ekki að snúa henni.

Mér var hleypt inn í þinghúsið en það var enginn þingfundur í gangi. Það var samt skemmtilegt að skoða húsið. Á leið minni út heilsaði mér maður "How are you?" og ég tók undir. Seinna þegar ég skoðaði myndir af þingmönnunum, komst ég að því, að þarna var enginn annar en þingforsetinn og ég hafði ekki hugmynd um heiðurinn, sem mér hafði hlotnast.

FB_IMG_1684569878326Það hafði verið pantað borð fyrir allan hópinn á "Moorish" sem er skammt frá hótelinu. Allur hópurinn mætti, líka þau sem höfðu farið til Tiwi-eyja. Þá kom í ljós að það voru mikil mistök að hafa ekki farið í þá ferð, því hún var miklu skemmtilegri en ferðin í gær, þó sú ferð hafi verið afbragðsgóð. Það er jafnvel þess virði að efna í aðra Ástralíuferð, til að komast til Tiwi-eyja.

Maturinn bragðaðist mjög vel, félagsskapurinn góður og kvöldið mjög vel heppnað. Við fljúgum til Cairns eldsnemma í fyrramálið. Hótelið verður yfirgefið kl. 5:00.


Krókódílar og termítabú

20230518_091046Ferð í Kakadu þjóðgarðinn hófst á siglingu á Adelaide ánni til að skoða krókódíla. Já og til að sjá þá gleypa kjötbita sem umsjónarmennirnir ögruðu þeim með. Við náðum að komast í færi við nokkra og allir fengu þeir kjötbita að lokum. 

Það var langt á milli staða sem voru á dagskránni, lengstu leggirnir tóku um 2 tíma. Á leiðinni sáum við stærðarinnar termítabú og leiðsögumaðurinn sagði að þau hæstu gætu verið um 9 metra há, sem þýðir að þau eru um 90 ára gömul. Merkilegt. Termítarnir hafa gert göng um mjög stórt svæði, sem verður til þess að halda lífi í skógunum, því vatnið berst eftir þessum göngum.

20230518_180552Viða í skóginum voru litlir eldar, til að halda skóginum á lífi en einhvern veginn tekst fólki að koma í veg fyrir að skógareldar fari af stað. Það er nauðsynlegt að gera þetta, því sum fræ koma ekki til, nema eldurinn opni þau.

Krókódílum hefur fjölgað mikið, jafnvel svo að þar sem fólk synti áður í sjónum er ekki lengur óhætt að synda. Við fórum að stað sem heitir Cahills Crossing, sem er brú yfir í byggðir frumbyggja en þarna er stífla og vegurinn undir vatni en það er ekki óhætt að fara fótgangandi þarna yfir, því það er líklegra en ekki, að krókódílarnir nái þér. Það gerðist síðast í síðustu viku.

Merkilegast var þó að koma til Ubirr, þar sem eru mjög gamlar myndir málaðar á kletta, þær eru taldar vera mörgþúsund ára gamlar. Frumbyggjarnir höfðu ekki ritmál, svo þeir máluðu myndir t.d. til að kenna yngri kynslóðum hvað væri ætt af veiðidýrunum. Þarna var mynd af tasmaníutígrinum, sem er löngu útdauður. Það er ekki til nein aðferð til að aldursgreina þessar myndir.

Í  Bowali Visitors Centre mátti sjá merkilegt tímatal frumbyggjanna (sjá mynd á steininum).20230518_132734

Það kom fram að tveir af stöðunum sem við heimsóttum eru á heimsminjaskrá SÞ, þjóðgarðurinn sjálfur (sem er á stærð við Sviss) og klettamyndirnar í Ubirr.

Á heimleiðinni sáum við appelsínugula sól og afar fallegt sólarlag. Það voru hamingjusamir íslendingar sem komu "heim" eftir 13 klst. ferð.FB_IMG_1684456710004


Ástralía - Darwin, dagur 1

Það var alveg óþarfi að kvíða þessu. Ferðin til Darwin gekk svona ljómandi vel. Ferðafélagarnir mættu allir á tilsettum tíma í Leifsstöð. Flugvélin til Frankfurt lagði af stað á réttum tíma og ferðin mikla hófst.

Þegar 36 tímar voru liðnir frá því ég var sótt heim til mín var ég komin inn á þetta fína herbergi í miðbæ Darvin. Herbergið er áreiðanlega einir 40 fm. svo ég get ekki kvartað.20230516_163031

Orkan var ekki meiri en svo að ég rétt náði á ítalskan veitingastað, fékk mér Lasagna Bolonese, bragðbætt með alveg ágætu Merlot rauðvíni. Þegar ég hafði fengið nægju mína fór ég bara "heim" að sofa.

Ég svaf í 12 tíma samfleytt og veitti ekki af hvíldinni. Þegar ég var klædd og komin á ról og búin að setja upp sumarhattinn, lagði ég af stað að "The Waterfront" sem er stærðarinnar svæði með ráðstefnuhöll, veitingastöðum, litlu lóni - svipuðu og er í Nauthólsvík og fleiru áhugaverðu. Þarna var margt um manninn og ég hitti hjón frá Melbourne, sem fannst merkilegt að hitta íslending og sögðust vera með Ísland á listanum yfir væntanleg ferðalög.

20230517_124509"Hop on, hop off" var í göngufæri, svo ég ákvað að fá mér far með þeim. Eins og gera má ráð fyrir, var keyrt á milli staða á borginni og sagt frá því áhugaverðasta. Ég vissi t.d. ekki af mannskæðum hvirfilbyl (cyclone Tracy), sem varð á jóladag 1974 og hafði mjög alvarlegar afleiðingar. Alvarlegast var að Darwin-búar náðu ekki sambandi við umheiminn til að láta vita, hvað hafði gerst. Umheimurinn vissi ekki af þessum hörmungum og þess vegna barst aðstoð ekki strax til borgarinnar. Darwin er í "The Northen Territory" sem er á stærð við Ísland og íbúarnir í borginni eru um 240 þúsund talsins.

Umhverfi hótelsins hefur verið kannað og mér líst vel á.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband