Kuranda og regnskógurinn

20230522_112211Við vorum alls 10 sem fórum saman í ferðina "Scenic Railway and Skyrail" eins og kemur fram í færslu um viðburði síðasta laugardags. Hópurinn þurfti að koma sér að Novotel í næstu götu og var ferjaður að lestarstöð fyrir lestina frá Cairns til Kuranda.

Lestarteinarnir voru byggðir þar sem gullæði greip um sig á svæðinu á síðari hluta 19. aldar og ferðin að Kuranda var ill yfirferðar á þeim tíma. Frumbyggi, Christie Palmerson, fékk það hlutverk að finna leið fyrir lestina til að tengja gullgrafarasvæðið við sjó. Bygging teinanna hófst árið 1887 og þykir ein metnaðarfyllsta uppsetning lestarteina sem gerð hefur verið. Alls voru um 1.500 menn sem stóðu að þessu verki sem nær yfir 33 km. Á leiðinni eru 15 jarðgöng sem voru handgerð, 55 brýr og 98 beygjur. Hækkunin er 327 m. yfir sjávarmál. Það snéru ekki allir heilir heim. Ef ég man rétt létust 33 við byggingu verksins. Það var einstök upplifun að ferðast með lestarvögnunum sem flestir eru frá fyrri hluta 20. aldar. Áfangastaðurinn var Kuranda, sem er ekki lengur námubær, heldur ferðamannastaður en þar búa rétt um 3.000 íbúar.

FB_IMG_1684831315334Rétt við innkomuna i bæinn sáum við Rótarýmerkið á áberandi stað. Það má því draga þá ályktun að það sé starfandi klúbbur í bænum.

Með farmiðanum fylgdi afsláttur að fiðrildasafni, fuglasafni og Koalabjarnagarði. Í bænum er hægt að kaupa skartgripi úr ópalsteini, belti úr krókódílaskinni, sumarföt og leðurhatta, fyrir utan alla möguleikana á að fá sér í gogginn. Á aðalgötunni sat frumbyggi og spilaði á didgeridoo. 

Gert var ráð fyrir um tveggja tíma stoppi í bænum. Þegar sá tími var uppurinn var næst á dagskránni að fara Skyrail ferð yfir regnskóginn. Mig skortir orð til að lýsa regnskóginum eða því hvernig er að skoða hann ofanfrá, eins og fuglinn fljúgandi. Stórfenglegt er kannski orðið sem nær því best. Á leiðinni niður áttum við þess kost að fara út á tveimur stoppistöðvum og auðvitað notfærðum við okkur það. Þarna gafst færi á að ganga um regnskóginn, sem er líka ólýsanlegt, - ilmurinn, kyrrðin, litirnir, fjölbreytni trjátegundanna og svo margt annað.

Það voru hamingjusamir félagar sem var skilað á fyrrnent Novotel að ferð lokinni. 20230522_145702


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband