24.2.2007 | 09:50
Leifsstöð og afmæli
Jæja, nú er allt tilbúið, snyrtitaskan komin ofan í ferðatöskuna og búið að loka henni. Sólin skín, kyrrð á laugardagsmorgni og allt er frábært.
Minný og Sigvaldi ætla að keyra mig suðr eftir eins og Suðurnesjamenn segja þegar farið er frá Höfuðborgarsvæðinu og til Keflavíkur. Ég á eftir að smella kossi á nokkra þar, að sjálfsögðu gef ég mér tíma til þess og reikna með að tékka mig inn í flugið kl. þrjú.
Ssssssssppppppppeeeeeeeennnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnaaaaaaaaannnnnnnnnddddddddddiiiiiiiiiiiiiiiiii............
Nú veit ég ekki hvenær ég blogga næst, það er ekki víst að ég nái að gera færslu á morgun en þar sem það er nokkuð merkilegur dagur eða afmælisdagurinn hans Steina, þá tek ég hér með forskot á sæluna og segi: Til hamingju með daginn Steini minn og njóttu hans vel.
Á morgun má taka undir þetta (allir saman nú):
Hann á afmæl í dag,
hann á afmæl í dag,
hann á afmæl ann Steini,
hann á afmæl í dag.
Bloggumst síðar
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2007 | 15:45
Föstudagssíðdegi
Andrúmsloftið á föstudagseftirmiðdegi finnst mér oft svo merkilegt. Það liggur oft eitthvert eirðarleysi í loftinu, sérstaklega þegar sólin fer að hækka á lofti og það er svona gott verður eins og í dag. Ég tók eftir þessu fyrst þegar ég var unglingur í skóla. Stundaskráin var oftast tóm eftir hádegi á föstudegi og tilvalið að nota tækifærið til að kíkja niðr í bæ. Athuga hvort vinirnir og/eða kunningjarnir væru ekki að þramma upp og niður Hafnargötuna (í Keflavík), hvort það væri eitthvað nýtt í Fataval eða Póseidon - sem voru
tískuverslanirnar í þá daga. Við bjuggum ekki svo vel að hafa kaffihús í bænum á þessum tíma, það dugði bara að setjast á tröppurnar við pósthúsið eða einhversstaðar annarsstaðar til að spjalla og hafa það gott, horfa á þá sem voru komnir með bílpróf og voru á rúntinum - kannski fengi maður að vera með.... Árni Sam bíókóngur var þá með Víkurbæ og Jósafat Arngrímsson með Kyndil. Þeir kepptust við að spila vinsælustu músíkina og beindu hátölurunum út á götu. Það var nú skemmtilegt. Mér finnst einmitt vera svona andrúmsloft í dag, það liggur við að ég skelli mér til Kef. til að gá hvort eitthvað hafi breyst.
Nú er ég næstum búin að pakka, það er margbúið að fara yfir farangurslistann, strika út og bæta við en héreftir verður engu breytt. Védís vinkona mín segir að það komi að þeim punkti þegar ekki er hægt að gera neitt meira. Nú er ég komin að þeim punkti. Ferðataskan stendur opin hér rétt hjá mér og já, furðulegt nokk, ég get lokað henni! Það sem eftir er dagsins mun ég bara gera það sem mér sýnist, njóta veðursins og föstudagsins.
Góða helgi.
Ég stefni að því að ná einni blogg-færslu á morgun, áður en ég legg af stað.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.2.2007 | 22:48
Allabaddarí Fransí
Nóg að gera í skipulagningu ferðalaga, þessa dagana. Glöggir lesendur sjá það strax að þarna er talað um ferðalög í fleirtölu. Jú, annað ferðalag virðist vera í uppsiglingu í haust. Þannig er mál með vexti að það eru víst ein fimm ár síðan ég fór á frönskunámskeið og kynntist þar 9 skemmtilegum konum. Námskeiðið var haldið á Ile dOlerone í Frakklandi og var bráðskemmtilegt í alla staði. Þarna eyddum við viku og skipunin var að ekki mætti tala annað en frönsku nema í undantekningartilfellum. Hér þarf að taka það fram að engin okkar var neitt sérlega sleip í frönsku. Svo gerðist það að árið 2004 tókum við okkur saman, fjórar úr þessum hópi og fórum aftur til Frakklands. Í þetta skipti leigðum við okkur hús og bíl og eyddum heilli viku á þjóðvegum landsins (ja, meira og minna). Það var ekki leiðinleg ferð. Án þess að ýkja er óhætt að segja að þó ýmsir óvæntir hlutir hafi gerst, þá var verulega gaman, mikið hlegið og spekúlerað. Við þessar 4 sem fórum höfum passað það að láta hinar sem eftir sátu vita, hvað við skemmtum okkur svakalega vel.
Jæja, í dag gerðist það að alls sjö konur úr þessum hópi hittist til að skoða möguleika á að leigja sumarhús í Frakklandi í haust og spjalla almennt um það hvað svona ferðir eru skemmtilegar. Nú er svo komið að við höfum ákveðið að hittast einu sinni í mánuði til skrafs og ráðagerða varðandi sumarhúsaferð til Frakklands í haust! Að sjálfsögðu lagði ég til að næsti fundur verði haldinn með fjarfundabúnaði, svo ég geti fylgst með þróun mála úr annarri heimsálfu. Ég má ekki missa af neinu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2007 | 17:35
Regnhlíf, bíll, strætó og lofthræðsla.
Göngutúrinn n.k. mánudag verður betri en á horfðist í gær. Nýjasta veðurspáin fyrir Washington er gjörbreytt, skjótt skipast veður í lofti eða þannig. Nú er spáð að það verði skýjað á mánudag, 11°C hiti og vindur 14 m/klst. Er það ekki bara gola? Spáð er aðeins kaldara á þriðjudaginn eða 7°C hiti, skýjað og meiri blástur: 18 m/klst. Skúrir á miðvikudag og rigning á fimmtudag. Best að taka regnhlífina með. Listinn yfir farangurinn tekur stöðugum breytingum.
Þar sem heimilið verður í 15-20 mín. göngufæri við vinnustaðinn reikna ég með að nota ganglimina en ekki önnur farartæki, til að koma mér á milli staða. Annars segir í bók um borgina að það sé auðveldast að komast um hana með því að nota neðanjarðarlestirnar. Þar segir líka að það séu neðanjarðarlestatengingar um alla borg nema Georgetown og tengingar líka við úthverfin í Maryland og Virginia. Reyndar sagði Gulla frænka mér það um daginn, að ég gæti tekið lest frá stöð skammt heiman frá mér og alla leið til hennar í Virginia. Í þessari góðu bók kemur það líka fram að í þeim hverfum sem neðanjarðarlestakerfið þjónar ekki er þetta fína strætókerfi. Svo er auðvitað möguleiki á að taka leigubíl. Hins vegar sé ég fram á að ég muni ekki leigja mér bíl, því það er víst svo erfitt að fá bílastæði, segir í bókinni. Fólki er ráðlagt að leggja bílnum, finni það stæði og nota síðan neðanjarðarlestakerfið.
Að lokum læt ég fylgja með mynd, sem ég fann áðan og hefur ekkert með þessa færslu að gera. Hún er ekki ætluð lofthræddum.
Þetta er allt sem ég vildi segja, í bili. Hafið það gott það sem eftir lifir dags.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.2.2007 | 16:51
Veðurfréttir
Kíkti á www.weather.com til að tékka á veðrinu í Washington. Það er ískalt þar; 4°C en feels like 2°C. Loftþrýstingur 1012,5 mb. og skyggni 16,1 km. Sólin mun skína n.k. laugardag en líklega verður hún sest þegar ég lendi loksins í borginni. Á sunnudag fer að rigna og verður svo fram á fimmtudag í næstu viku en þá á sólin að brjótast fram, spáð er 5-11°C hita. Veðrið fer batnandi...........
Mér hefur verið ráðlagt að taka með mér hlýja peysu, líklega þarf ég að taka allan fataskápinn með mér því það verður komið vor, jafnvel sumar þegar síga fer á seinni hluta ferðarinnar. Skelli lopapeysunni með og læt það ráðast með restina, það eru jú margar búðir í borginni, er það ekki?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.2.2007 | 21:21
Hjólkoppaævintýri Runólfs Mergjaða
Fyrir nokkrum vikum var vinnustaðapartí, sem er svosem ekkert nýtt né frásagnarvert. Hitt er annað mál að Runólfur Mergjaði bar mig innanborðs að samkomustaðnum. Best að geyma hann í bílskýlinu, hugsaði ég, svo ekkert komi fyrir hann á meðan ég er í burtu. Þarna var ég náttúrulega að storka örlögunum, því bílskýlið er hálfopið þannig að þegar ég kom aftur að Runólfi, hafði öllum hjólkoppunum verið stolið af honum. Segi og skrifa: öllum fjórum. Það fannst mér ekki falleg sjón og ákvað að kippa því í liðinn án nokkurra vafninga.
Æ, hvað heitir hann aftur koppasalinn sem býr við Rauðavatn? spurði ég stúlkuna sem svaraði hjá 118. Hún hafði ekki hugmynd um það. Ég sem hélt að það væri hægt að spyrja þær um hvaðeina; uppskriftir, heimilisviðgerðir o.fl. Valdi koppasali, sagði Kári tengdasonur Steina bróður og ég hringdi aftur í 118 til að fá símanúmerið hjá honum. Auðvitað átti Valdi hjólkoppa, ekki í hundraðatali, heldur í þúsunda ef ekki tugþúsunda. Hann átti ekki í neinum vandræðum með að finna fjögur stykki á hann Runólf Mergjaða. Að vísu reyndust tveir þeirra vera of lausir til að hægt væri að treysta því að þeir færu ekki af í næstu beygju. Heyrðu vilt þú ekki bara fara og ná í aðra, ég bíð bara í bílnum á meðan, það er svo kalt og hált, sagði ég. Sumir keyra í burtu. Ég lofa að keyra ekki í burtu á meðan.
Jæja hann hvarf bak við hús og kom rétt strax með þrjá hjólkoppa, sem allir pössuðu eins og flís við rass. Mig vantaði bara tvo til viðbótar við hina tvo sem höfðu smellpassað í fyrri tilrauninni, þannig að ég fékk þann þriðja með í kaupbæti. Þú verður þá að auglýsa mig í staðinn. Ég er semsagt að efna það loforð núna.
Af hverju er ég að segja þessa sögu núna? Jú, vegna þess að ég komst að því í dag að einhversstaðar úti í myrkrinu liggur hjólkoppur af Runólfi Mergjaða og sá sem ég fékk í kaupbæti, kom sér að lokum vel.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.2.2007 | 11:42
Tilviljun? Hver veit?
Stundum er eins og eitthvað eitt gerist endurtekið sama daginn. Leyfið mér að útskýra; í mínu lífi kemur fremur reglulega dagurinn sem ég kalla hringjum í Guðrúnu dagurinn. Á þeim degi gerist það að allskonar fólk hringir í mig, allt frá góðum vinum upp í fólk sem ég þekki lítið sem ekkert, fólk sem ég er í reglulegu sambandi við eða sem ég heyri örsjaldan í.
Í gær var konudagurinn hjá mér, þó hann sé í dag, skv. almanakinu. Það var ekki venjulegur konudagur, heldur látum Guðrúnu hitta konurnar sem eru náskyldastar henni dagurinn. Mig rekur ekki minni til að svoleiðis dagur hafi komið áður, nema ef einhver hafi tekið sig til og haldið einhverskonar boð. Ekkert slíkt boð var í gær, nei, nei, dagurinn byrjaði á því að við systurnar fórum í verslunarleiðangur fyrir hádegi. Afraksturinn: enginn. Eftir hádegi var ég svo bara eitthvað að dingla mér hérna heima þegar Edda systurdóttir hringdi til að athuga hvort ég væri heima, þau Ási ætluðu að líta við, sem þau og gerðu. Ægilega gaman að fá þau í heimsókn, Ási hefur t.d. aldrei kíkt við áður. Við spjölluðum um ýmislegt yfir tebolla og snúðum á meðan Eldur, chihuahua hundurinn þeirra var í könnunarleiðangri um íbúðina. Edda hefur ekki komið síðan ég átti afmæli s.l. vor. Jæja, þegar þau fóru datt mér í hug að kíkja á handleggsbrotna móður mína í Keflavík og hringdi í hana til að athuga hvort
hana vantaði eitthvað. Bollur og rjóma var svarið. Til að ná í vistirnar skrapp ég í Hagkaup og gekk beint í flasið á Völu bróðurdóttur, sem ég hef ekki séð síðan um jól. Eftir að hafa spjallað smávegis, benti Vala mér á, að Soffía systir hennar væri að vinna í snyrtivörudeildinni, svo við færðum okkur þangað og spjölluðum enn meira. Þegar upp var staðið hafði ég hitt þær konur sem eru náskyldastar mér í þremur ættliðum; mömmu, einustu systur mína og systkinadæturnar þrjár, allar sama daginn. Sumt af hittingnum var undirbúið, annað ekki. Tilviljun? Hver veit?
Gleðilegan konudag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.2.2007 | 16:26
Ferðaáætlun
Nú er ljóst að ferð mín til Washington verður fyrir alvöru. Ég fékk farmiðann í hendur í gær. Jamm. Hann hljóðar upp á flug til Boston, (skipti þar um flugstöðvarbyggingu,) flug til Duelles í Washington, sex vikur líða, þá flug frá Baltimore og heim. Lendi í Keflavík að morgni annars í páskum.
Biðtíminn í Boston er þrír tímar. Það hlýtur að vera nægur tími til að fara í gegnum tollinn, ná í farangurinn, finna flugstöðvarbyggingu C en þaðan er flugið til Duelles-flugvallar í Washington, skrá sig í flugið og fá sér eitthvað í gogginn.
Sem betur fer gengur shuttle bus númer 11 milli bygginga B (þar sem ég lendi) og C á 8 12 mínútna fresti á tímanum frá kl. 4 eftir miðnætti til kl. 1 eftir miðnætti. Stoppistöð er á lower baggage claim í hverri flugstöðvarbyggingu. Ég ætti að ná auðveldlega í svona shuttle bus .
Kannski þessar upplýsingar komi einhverjum lesandanum vel einhverntíma í framtíðinni.
Ekki meira í bili, Edda og Ási eru að hringja á dyrabjöllunni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2007 | 12:56
Menningin
Menningarklúbburinn gerði sér lítið fyrir í gær og fór í Salinn í Kópavogi til að hlusta á Terem-kvartettinn og Diddú. Það var sko tíma vel verið. Til útskýringar vitna ég hér í kynningu á kvartettinum sem ég fann á heimasíðu Salarins. Á efnisskrá kvartettsins er á þriðja hundrað tónverka, allt frá umskrifunum fyrir breytta hljóðfæraskipan til þversagnakenndra fantasía sem byggðar eru á þekktum stefjum eftir Bach, Mozart, Rossini, Bizet, Piazzolla, Rota, Rimsky-Korsakoff, Tchaikovsky og fleiri. En þótt hópurinn viði að sér tónlist úr ýmsum áttum breytist hún í meðhöndlun þeirra og talar til manns tærri, rússneskri röddu. Með þessum hætti verða þeir sem Terem-kvartettinn skipa meira en aðeins tónlistarmenn. Þeir færa fólki gleði, ást og eftirvæntingu um þau meistaraverk sem í vændum eru. Tónleikarnir verða endurteknir í kvöld og ef það er enn hægt að fá miða, þá mæli ég með því að þú lesandi góður krækir þér í einn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2007 | 16:48
Málinu reddað!

Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)