4.3.2007 | 23:58
Smithsonian
Minn litli fjölþjóðlegi hópur þrammaði alla leið að Smithsonian-söfnunum í morgun. Í þetta sinn skoðuðum við National Museum of Natural History, National Air and Space Museum og The Botanical Gardens. Þegar því var lokið voru liðnir u.þ.b. 6 klukkutímar og allir orðnir verulega lúnir. Þar sem ekki var búið að fá sér deigan dropa frá því um hádegið var ákveðið að taka neðanjarðarlestina að Dupont-Circle, setjast inn einhversstaðar og fá sér kaffi og meððí, hvíla lúin bein og versla í matinn eftir það. Að lokinni góðrihvíld var haldið til Safeways á 17th Street. Það tók okkur um 1 ½ tíma að versla fyrir pastapartíið sem er fyrirhugað í kvöld hjá Ítalanum.
Ekki voru allar fréttir góðar sem við fengum í dag, því eiginkona Finnans kom með honum hingað er gengin 6 mánuði á leið, missti vatnið í nótt, er komin á spítala, og ástandið er stable eins og þeir segja. Æ, ekki er það nógu gott að vera svona langt frá heimalandinu þegar svona gerist, svo við hin ætlum að gera okkar besta til að leika fjölskyldu þeirra, svo langt sem það nær.
Verð að drífa mig, meira seinna.
Ferðalög | Breytt 12.3.2007 kl. 03:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2007 | 02:16
Myndir, - loksins!
Svona var útsýnið út um gluggann hjá Olgu frænku að morgni fyrir viku síðan eða þann 25. febrúar
Hluti hópsins kominn út á lífið, á þriðjudagskvöldi þarna eru frá vinstri: Ungverji, Mósambikbúi, Makedóníumaður, Hondúrasbúi, einn frá Gíneu-Bissau, Íslendingur og Georgíumaður.
Voða dugleg: Ítalinn, Hondúrasinn og Makedóníumaðurinn.
Matarboðið hjá Ítalanum, þarna er fólk frá: Makedóníu, Mósambik, Póllandi, Hondúras, Ítalíu, Armeníu og Ungverjalandi.
Þessi er tekin fyrir utan Hvíta húsið í dag: Ítalía, Makedónía, Gambía, Hondúras, Grenada, Ísland, Ungverjaland og Georgía.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2007 | 13:29
Ísabella 3ja ára!
Nú er Ísabella loksins orðin 3ja ára. Af því tilefni tökum við öll undir með þessu:
Hún á afmæl í dag,
hún á afmæl í dag,
hún á afmæl hún Ísabella,
hún á afmæl í dag.
Innilegar hamingjuóskir yfir hafið, leiðinlegt að ég skuli ekki geta heimsótt þig í dag, krúttið mitt.
Þessi mynd er reyndar frá júlí í fyrra og stelpan hefur stækkað mikið síðan.
Annars er ég að búa mig undir skoðunarferð um borgina. Fram að þessu hef ég ekki gefið mér tíma til að kanna neitt nema nánasta umhverfi hótelsins, fyrir utan tilraun mína um daginn þegar ég ætlaði að kíkja á Hvíta húsið og var vísað frá.
Þegar fólk hefur fræðst eitthvað um borgina verður haldið til Potomac mills til að versla. Einn félaganna orðaði það þannig í gær: They dont know what hit them eða að þeir (verslunareigendurnir) muni ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið.
Góða helgi!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2007 | 13:39
Veðurfréttir og matar-
Það er að hlýna nú er 14°C hiti en það rignir (eins gott að ég tók regnhlífina með mér). Spáð er sólskini upp úr hádegi. Námskeiðið er komið á fullt skrið og nóg að gera við að kynnast fólki, umhverfinu og síðast en ekki síðst námsefninu.
Ítalinn eldaði pasta í gærkvöld og bauð nokkrum félögum ásamt ekta Ítölsku espresso. Við hin sýndum lit og komum hvert og eitt með eitthvað smávegis. Hann tók hráefnið og kaffivélina með sér að heiman. Það finnst mér vel af sér vikið. Maturinn heppnaðist vel og félagsskapurinn var skemmtilegur. Þrátt fyrir alþjóðlegt yfirbragð er ýmislegt sameiginlegt, t.d. smekkur á tónlist, svo eitthvað sé nefnt.
Ekki meira í bili, því ég er eitthvað svo andlaus enda nývöknuð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2007 | 13:09
Alþjóðleg samvinna
Alþjóðleg samvinna sýndi sig í verki í þvottahúsinu í gær. Þar voru saman komnir þegnar Finnlands, Tyrklands og Palestínu auk mín og hjálpuðust að við að finna út hvernig þvottavélarnar og þurrkararnir virkuðu. Samvinnan tókst með ágætum og nú eru a.m.k. þessar þjóðir af námskeiðinu með hreinan þvottinn sinn.
Annars konar samvinna átti sér stað í the recreation room í gærkvöldi. Þá voru saman komin Mósambik-búinn, Ítalinn, Makedóninn, Armeninn, Pólverjinn, Ungverjinn og Hondúrasinn auk mín að spila pool, borðtennis eða fótboltaspil. Það var ögn meira líf yfir þessari samkomu en þeirri í þvottahúsinu og meiri leikgleði og auðvitað tókst hún með ágætum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2007 | 13:29
Lítill heimur
Fyrsta hópverkefnið gekk vel í gærmorgun. Hópurinn sem ég tilheyri samanstendur af Nígeríubúa, Palestínumanni, Mósambikbúa, Tyrkja, einum frá Gíneu-Bissau, Perúbúa, Botsvanabúa, Líberíubúa ásamt mér.
Eftir vinnu fór ég í könnunarleiðangur og fann bæði matvörubúð og þetta fína bakarí. Það var fínt að fá sér gönguferð að Dupont-circle og hreinsa aðeins til í huganum eftir allt sem bar fyrir augu fyrr um daginn.
Nokkrir úr hópnum höfðu mælt sér mót um áttaleitið (20:00) því halda skyldi á jazz-bar í Georgetown. Það var ekki mikið að gerast þar, svo við ákváðum að fá okkur eitthvað í gogginn. Nema hvað? Eftir að það var yfirstaðið fórum við á annan stað þar sem við sáum að verið var að spila á gítar og bongó-trommur. Þetta var mjög skemmtilegur staður og það skipti engum togum að við fengum okkur snúning! Gítaristinn vildi endilega að við gerðum grein fyrir því hvaðan við kæmum. Í ljós kom að annað slagið kemur Íslendingur þarna fram og syngur; Kjartan Þórarinsson. Leikari sem er að setja upp leikrit sem á að frumsýna 17. mars en hvar það verður get ég alls ekki munað. Hann var einmitt staddur þarna og fólki fannst það skrýtið að af 300.000 manna þjóð myndu 2 hittast þarna fyrir algera tilviljun. Okkur finnst það ekkert skrýtið, það er jú fullkomlega eðlilegt.
Núna skín sólin, alveg eins og í gær og það er spáð 10°C hita. Fyrirlestrarnir hefjast ekki fyrr en eftir klukkutíma, svo ég er að hugsa um að lalla einhvern skemmtilegan hring og kanna umhverfið betur.
Ég gleymdi að geta þess að það var ábyggilega Anne Bancroft sem beið eftir fluginu til Boston um daginn, í Leifsstöð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.2.2007 | 12:50
Í rafmagnsleysinu
Ekkert varð úr móttökunni í gærkvöldi, þar sem það var ekkert rafmagn í hverfinu. Við höfðum safnast saman, allraþjóðakvikindin, í anddyrinu því þar var ljós frá einhverri varastöð. Þetta var svona hvað á til bragðs að taka? stund. Í ljós kom að rafmagnsleysið var einungis bundið við lítinn hluta hverfisins, svo úr varð að við ákváðum að færa okkur yfir í borgarhluta sem gat boðið okkur lýsingu og mat.
Þarna var saman komið fólk m.a. frá Póllandi, Finnlandi, Ítalíu, Hondúras, Makedóníu, Mongólíu, Nígeríu, Íran, Gíneu-Bissau og fleiri löndum sem ég hef ekki enn áttað mig á.
Hópurinn, 14 manns ákvað að finna veitingahús í Georgetown og hélt af stað. Að lokum fundum við ágætisstað við M street - rugluðum öllu systeminu þar, með því að færa saman 4 borð en það jafnaði sig. Skammtarnir eru svo stórir hérna, t.d. pantaði ég Rib eye steik. Hún kom á diski sem var ábyggilega 26 cm í þvermál og tók yfir 2/3 af plássinu á diskinum! Það var ekkert annað að gera en að hlæja, þetta var skammtur fyrir a.m.k. 3 fullorðna. Hahahahaha. Kvöldið var semsagt vel heppnað, þó ekki hafi litið út fyrir það um stund.
Þegar heim var komið var rafmagnið ekki komið en af einhverjum ástæðum hafði ég keypt kerti og eldspýtur í CVS fyrr um daginn til að gera kósý í íbúðinni. Eldspýturnar hafði ég verið meið í veskinu, svo ég rataði um íbúðina í myrkrinu þegar heim var komið. Einhverntíma í nótt varð ég vör við að það var ljós frammi, svo núna erum við aftur komin í samband. Eins gott.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.2.2007 | 23:02
Fyrsti dagurinn....................
Vá, það var margt og mikið sem gerðist í dag. Dagurinn byrjaði á því að ég vaknaði fyrir allar aldir eða kl. 6 að staðartíma en þá er hún orðin 11 heima og ég alger svefnpurka. Það var ekki nokkur leið að ég gæti sofið lengur og þá dreif ég mig bara framúr. Eldaði morgunmat og var lögð af stað í vinnuna þremur korterum áður en ég átti að mæta. Það var nú eins gott, ég var komin hálfa leið inn í Alþjóðabankann áður en nokkur áttaði sig á því að þar átti ég allsekki að vera, heldur across the street í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Á báðum stöðum er mikil öryggisvarsla og engum óviðkomandi hleypt yfir þveran þröskuld. Jæja, smátt og smátt safnaðist þarna saman fólk af ýmsum þjóðernum og heimsálfum.
Afar athyglisvert; fáir Evrópubúar en þess fleiri frá Suður-Ameríku, Afríku og Asíu. Það væri ekki vanþörf á því fyrir mig að taka fram Atlasinn til að finna hvar sumt af samnemendunum á heima. Ekki er ástandið í landafræðikunnáttunni gott.
Einhvernveginn er það betra þegar óvissunni hefur verið eytt, nú hef ég séð aðstæður, fyrirlesara og samnemendur og þá er miklu fargi af mér létt.
Dagurinn byrjaði á sameiginlegum morgunverði, þá var farið í tölvuaðgang, ýmis öryggisatriði og áður en ég vissi af, var klukkan orðin 11. Þá þurfti allur hópurinn (40 manns) að fara í myndatöku til að aðgangur nemenda að húsnæðinu verði auðveldari hér eftir. Þegar fólk var sloppið frá því kom hádegisverðarhlé.
Eftir hádegið gerði hver og einn grein fyrir sér, við hvað hann/hún starfaði og hvaða væntingar fólk hefði. Loks hófust kynningar á efninu og fyrirlesurunum. Þegar upp var staðið um fimmleytið, var ég nokkrum kílóum ríkari af pappír og möppum og það er bara byrjunin eða um 1/3 af efninu sem námskeiðið á að þekja.
Nú er ég að fara að búa mig fyrir reception sem hefst eftir hálftíma. Veit ekki hvernig það fer, þar sem rafmagnið fór af hverfinu, það eru einhverjar vinnuvélar hér fyrir utan, ætli einhver hafi ekki skorið í sundur einhvern mikilvægan steng.
Myndavélin er enn að stríða mér en ég vonast til að geta leyst vandamálið fyrr en síðar. Vonandi verður mér sýnd þolinmæði þangað til.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2007 | 12:32
Á leið í vinnuna....
Já, við frænkurnar og J.B. fórum að versla í matinn. Það var engin venjuleg verslun sem við heimsóttum: Wegmans. Það virðist allt mögulegt vera til. Innanborðs er fullbúið bakarí, hægt er að velja sér í matinn, fá það eldað og fara með það upp á loft og snæða þar. Búðin er sett upp eins og markaðstorg og þegar setið er uppi við að gæða sér á kræsingum er eins og litið sé yfir torg í miðbæ einhversstaðar. Á neðri hæðinni er svo vínkjallari. Það var upplifun fyrir mig að líta þennan stað.
Fullbúin vistum lögðum við síðan til Washington og fundum Concordia Building en þar mun ég búa. Ég veit ekki hvernig ég hefði komist af án hjálpar Olgu og J.B. Takk fyrir það, kæru vinir.
Herbergið er um 50 60 fm. ég get svo svarið það: eldhús með stórri gaseldavél, örbylgjuofni, uppþvottavél, stórum ísskap og ég veit ekki hvað og hvað. Tvö sjónvörp til að velja úr, annað í stofunni, hitt í svefnherberginu, stórir skápar og hirslur. Allt eins og best verður á kosið.
Einu vandræðin eru að ég virðist ekki geta dánlódað myndum af fínu nýju myndavélinni, svo þið fáið ekki að sjá myndina sem ég tók í gær af snjónum í garðinum hennar Olgu. Vonandi tekst það að lokum.
Ekki meira í bili. Ég er að undirbúa mig fyrir fyrsta vinnudaginn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.2.2007 | 15:27
Flugvélar og flugstöðvarbyggingar
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)