15.2.2007 | 15:46
Runólfur Mergjaði
Einkennilegt hef ég hugsað þegar ég gef stefnuljós til vinstri. Af hverju er slátturinn í stefnuljósinu miklu hraðari þegar ég þarf að taka vinstri beygju en þegar ég vil fara til hægri? Runólfur Mergjaði (Renault Megane) fór nefnilega á verkstæði fyrir nokkru og það var skipt um háspennukefli í honum blessuðum. Lætin í vinstra stefnuljósinu hófust eftir það. Það hefur farið eitthvað úrskeiðis þegar gert var við bílinn. hugsaði ég. Gat nú verið. Á þessa leið voru hugsanir mínar í rúma viku, í hvert skipti sem ég beygði til vinstri.
Það var ekki fyrr en ég skrapp í Birtíng og skilaði lánsbókum til Gurríar að mér hugkvæmdist að koma við hjá umboðinu og benda starfsfólkinu þar á að eitthvað hafi nú ekki farið eins og til var ætlast í lagfæringunni um daginn. Eins og alkunna er, þá vinnur hún rétt hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum. Ég dreif mig þangað og króaði góðlegan verkstæðismann af, dró hann út í bíl, svo hann gæti heyrt þessi ósköp með eigin eyrum og jafnframt það að um stóralvarlegt mál væri að ræða.
Það er farin pera í stefnuljósinu vinstramegin að framan. Hefur ekkert að gera með viðgerðina um daginn var úrskurðurinn. Ok, það var semsagt ekki bíla-krabbamein eða eitthvað þaðan af verra sem gekk að blessuðum bílnum en mér leið samt eins og ég væri voða ljóshærð.
NB. Í mínum huga getur það komið fyrir fólk með hinn aðskiljanlegasta háralit að vera ljóshærð(ur). Sjálf er ég brunette.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 16:26
Lífsspeki
Stundum rekst ég á eitthvað sem mér finnst svo sniðugt og langar til að deila með fleirum t.d. þetta:
Það eru tveir dagar í hverri viku sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af, tveir dagar sem ættu að vera lausir við áhyggjur og kvíða.
Annar er gærdagurinn með öllum sínum mistökum, kvíða, göllum, glappaskotum og verkjum. Gærdagurinn er liðinn og kemur aldrei aftur og við höfum ekki yfirráð yfir honum lengur. Sama hversu hátt verð við erum ert tilbúin að greiða fyrir það. Það er ekki hægt að bæta fyrir það sem gert var eða sagt. Gærdagurinn er farinn.
Hinn er morgundagurinn, með mögulegt andstreymi sitt, byrði, áheit, og vonda frammistöðu. Morgundagurinn er líka utan yfirráðasvæðis okkar. Á morgun kemur sólin upp, annað hvort með glæsibrag eða á bak við ský. Hvort sem er, þá kemur hún upp. Þangað til eigum við ekkert í morgundeginum, hann er ófæddur ennþá. Þá er einungis einn dagur eftir: dagurinn í dag.
Hver sem er getur barist í eins dags bardaga. Það er bara þegar við bætum við byrðum þessara tveggja óbærilegu eilífða; gærdagsins og morgundagsins, að við brotnum. Það er ekki reynsla dagsins í dag sem gerir okkur brjáluð, það er samviskubit og biturð vegna þess sem gerðist í gær og kvíðinn fyrir því sem morgundagurinn ber í skauti sér. Þar af leiðandi skulum við lifa þennan dag í dag til hins ýtrasta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2007 | 16:18
Listaverk
Listar eru til ýmissa hluta nytsamlegir, ég tala nú ekki um þegar ferðalag er fyrirhugað. Ég er hvorki að tala um parketlista né loftlista, hahahahaha, heldur þá sem innihalda langa skrá yfir ýmis nauðsynleg atriði sem ekki má gleyma. Núþegar hef ég útbúið nokkra s.s. einn yfir þau gögn sem mér sýnist að ég taki með mér úr vinnunni og ég get notað sem hækju á námskeiðinu, efni sem til er á íslensku yfir það sem námskeiðið spannar. Annar er yfir farangur sem ég er að spá í að taka með mér en hann á eftir að breytast mikið fram á síðasta dag, mikið um útstrikanir og viðbætur. (Engir auðir eða ógildir). Svo er það listinn yfir heimilsföng og símanúmer vina og kunningja sem eru á svæðinu, hann má ekki gleymast. Einn listi er alveg óhannaður en hann á að innihalda þá staði sem ég þarf nauðsynlega að skoða þegar ég verð komin til Washington. Þar kemur ýmislegt til greina. Að síðustu má ekki gleyma listunum sem ég fékk frá námskeiðshöldurunum annar yfir dagskrána, hinn yfir lesefnið.

Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.2.2007 | 19:09
Traustur vinur getur gert kraftaverk, tralalalala
Það sannast alltaf betur og betur fyrir mér að það er gott að eiga góða að. Ég bjallaði í Gullu frænku (borið fram með smell-hljóði e.o. málmurinn gull) áðan en hún er önnur þeirra sem býr rétt fyrir utan Washington. Það var sannarlega gaman að tala við hana. Hún ætlar að kenna mér á neðanjarðarlestakerfið í höfuðborginni sem er mjög gott kerfi að hennar sögn. Auk þess benti hún mér á ýmislegt sem getur komið sér vel t.d. það að nú er kalt í borginni og að rakinn veldur því að það virðist ennþá kaldara en hitamælirinn sýnir. Best að taka með sér góða peysu og hlýja yfirhöfn. Hún var ekki lengi að átta sig á, hvar ég mun búa og gat staðfest að sá staður væri mjög miðsvæðis. Við ákváðum að ég myndi hringja í hana, á sunnudegi eftir hálfan mánuð. Hugsa sér; ég verð í Washington eftir hálfan mánuð!
Annað símtal og ekki verra var rétt eftir hádegið í dag, þegar ég sló á þráðinn til Fríðu mágkonu til að tékka á Geira Danmerkurfara. Það skipti engum togum að hún bauð mér í mat; kjöt í karrý og ég rauk af stað með hálfblautt hárið (nýstigin upp úr freyðibaðinu) enda átti ég eftir að keyra til Keflavíkur. Ýmsir fjölskyldumeðlimir voru samankomnir til að gæða sér á kræsingunum; Fríða og Nonni, Aðalgeir, mamma og ég. Aðalgeir dreif sig í pönnukökur til vinar síns, varla búinn að kyngja síðasta kjötbitanum. Ég held að hann hafi misst af ísnum sem var í eftirrétt. Fljótlega eftir hádegið mættu þeir feðgar Ingimundur og Aðalgeir yngri. Ekki spillti það gleðinni þegar þau birtust örlitlu seinna: Minný, Sigvaldi og Þorkell. Það var ekki komið að tómum kofanum hjá Hólmfríði frekar en fyrri daginn; hún dró fram heimabakaðar gerbollur og þessa fínu súkkulaðitertu með kaffinu.
Aðalgeir yngri, 2 ½ árs var mjög upptekinn af því að leika sér að skurðgröfu og vörubíl og lýsti því fyrir okkur hvernig snjórinn á eldhúsgólfinu hjá ömmu hans var grafinn upp og skellt á vörubílspallinn. Ýmislegt fleira bar fyrir augu hans, sem þurfti að skýra fyrir okkur fullorðna fólkinu enda sáum við lítið sem ekkert af því sem bar fyrir augu hans. Gaman að lifa sig inn í ímyndanir barnanna, alltaf fullt að gerast þar.
Gurrí mín, ég er sko ekki búin að gleyma þér, það er svo sannarlega gott að eiga þig að líka.
Ferðalög | Breytt 12.2.2007 kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.2.2007 | 11:19
Morgunstemming
Komin inn eftir góðan göngutúr. Svei mér ef það er ekki allra meina bót að drífa sig í útigallann, skella á sig góðum skóm og vaða út. Þramma þetta stefnulaust með sína þungu þanka. Áður en langt um líður er brúnin farin að léttast, sólin að hækka á lofti, skín á húsgaflana sem snúa í suðaustur, hitinn við frostmark, allt eitthvað svo ferskt. Göngugarpurinn réttir úr sér við að dást að umhverfinu, fáir á ferli, þó er einn og einn útivið í sama tilgangi og undirrituð. Gott að setjast við tjörnina og kíkja á endur og gæsir, nokkrir svanir eru þarna líka. Hópurinn syndir í átt til mín og heldur að ég láti brauðbita af hendi rakna en ég býð ekki upp á neitt, tók ekkert með mér.
Eftir rúmlega klukkutíma útiveru er ég komin inn, með rjúkandi tebolla við höndina, freyðibaðið alveg að verða tilbúið og Creadence Clearwater Survival á fóninum.
Gleðilegan sunnudag öllsömul.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.2.2007 | 23:58
Góður

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.2.2007 | 14:14
Hækkandi sól
Mikið er þetta yndislegur tími; þessi tími þegar birtan eykst dag frá degi. Hann fyllir mig alltaf einhverri sérstakri ánægjutilfinningu og eftirvæntingu; eins og ég hafi fengið vítamínssprautu. Það er einhvern veginn allt að vakna til lífsins. Ég get ekki varist þeirri hugsun að hálfvorkenna þeim sem búa á suðlægari slóðum, hvað þetta varðar. Þeir missa af ánægjunni af því að fylgjast með hvernig dagurinn lengist og fjörið færist í umhverfið. Greyin. Það er ekki hægt annað en að vorkenna þeim sem hafa ekki upplifað þessa tilfinningu. Ætli það sé hægt að lýsa henni fyrir einhverjum sem býr við miðbaug og það að allir dagar ársins eru jafnlangir? Engin tilbreyting. Dagar eins og þessi í dag, spilla svo sannarlega ekki ánægjunni (splitta ekki stuðinu eins og maður segir). Sól, logn og föstudagur, er hægt að hafa það betra? Gluggaveður náttúrulega, hitinn við frostmark en flott engu að síður.
Svo er Aðalgeir bróðursonur að koma heim frá Danmörku í kvöld, sá held ég að sé ánægður með daginn. Velkominn heim kallinn minn.
Tilfinningasemi dagsins var í boði Guðrúnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.2.2007 | 20:08
Leiðsögn á netinu? Tæknilegt.
Það getur borgað sig að "surf-a" á netinu. Allskonar kort eru til og leiðalýsingar. Frábært! Ég fann það út að það er hægt að slá inn tvö heimilisföng og fá skriflega leiðsögn á milli þessara tveggja punkta. Allt í boði mapquest.com. Ok, ok, þetta hefur sjálfsagt verið hægt í mörg ár en hvernig á ég að vita um allar upplýsingarnar sem hægt er að finna á netinu? Nú hef ég prufað að staðsetja matvörubúðir í nágrenninu við væntanlegt "heimili" mitt í Washington, ekki nóg með það, heldur hef ég fundið út, hvar næsta moll er, hin ýmsu söfn og ég fann meira að segja net-kaffi í nágrenninu. Reyndar þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því, þar sem ég mun hafa fartölvuna meðferðis. Til að svala forvitninni sló ég inn heimilisföng frænknanna tveggja sem búa í nágrenni höfuðborgarinnar og fann út að önnur býr í 34 mínútna akstursfjarlægð í vesturátt og hin í 28 mínútna akstursfjarlægð í suðvestur. Er ég ekki heppin að hafa þær svona nálægt! Þær þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að ég verði eins og grár köttur hjá þeim, hins vegar er gott að vita af skyldmennum "i nærheden" eins og daninn myndi segja.
Mér finnst þetta mapquest.com alveg brill og vildi deila því með ykkur.
Meira seinna.......................
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2007 | 15:02
Námskeiðsupplýsingar
Tölulegar staðreyndir um efnið sem ég var að fá í hendur: listi yfir lesefni: 4 blaðsíður (A4) auk lista yfir dagskrá námskeiðsins sem tók einnig yfir 4 blaðsíður (A4), lýsing á námskeiðinu: 8 vélritaðar línur.
Múhahahahahaha
Hm, já, það er eins gott að láta hendur standa fram úr ermum eða augu á stilkum eða ............
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2007 | 13:01
Magnað
Mér finnst það alveg magnað hvað það eru margir leggast á eitt við að aðstoða mig við að afla allskonar upplýsinga sem ég hef þörf fyrir vegna væntanlegrar utanferðar. Bloggvinir og aðrir vinir. Til viðbótar við upplýsingarnar sem ég fékk frá Guðmundi bloggara í gær hefur mér borist langur listi af veitingahúsum (ásamt meðmælum) og söfnum (ásamt lýsingu). Magnað. Mér býðst jafnvel leiðsögn um Washington. Hún mun vera í boði einhverra innfæddra vina hans Þorkels systursonar. Hver veit nema ég nýti mér það kostaboð? Ég sé fram á, að ég hafi ekki nokkurn tíma til að sinna verkefninu sem mér er ætlað.
Ekki misskilja mig, þetta er ekki kvörtun. Öll þessi aðstoð kemur mér bara svo skemmtilega á óvart. Sendi þeim innilegar þakkir, sem hafa aflað þessara upplýsinga fyrir mig. Til að launa greiðan mun ég blogga ótæpilega um allt sem fyrir ber og rúmlega það. Það er ykkar að velja það úr, sem þíð hafið áhuga á.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)