16.4.2007 | 20:53
Nóg að gera, þrátt fyrir allt
Þessi mynd er frá The Farewell Luncheon sem haldinn var síðasta föstudaginn í Washington 6/4. Helgin sú var ekki sú auðveldasta, að kveðja allt þetta góða fólk sem fór að tínast í burtu strax á föstudeginum allt fram á sunnudag, þegar ég fór sjálf. Það er ekki laust við að ég sé eitthvað undarlega innantóm eftir Washington-upplifunina, a.m.k. hefur það tekið mig smá-stund á morgnana þegar ég vakna, að átta mig á því hvar ég er stödd. Nú þarf að taka á hinum gráa hversdagsleika, sem hefur þó ekki verið svo grár, frá því ég lenti á Keflavíkurflugvelli eldsnemma að morgni annars í páskum.
Þann sama dag, eftir að ég hafði fengið fegurðarblundinn, dreif ég mig á Kaffi-París, til að hitta Daníel, ameríkana sem bjó á Gamla-Garði fyrir 18 árum (já ég eldist bara um eitt ár þegar aðrir eldast um fimm - og er því rétt rúmlega tvítug). Sá hittingur sannfærði mig um það skipti ekki máli þótt mörg ár líði án þess að fólk hittist eða eigi samksipti. The way to a friend is never long hvorki í tíma né rúmi. Það var eins og það hefðu bara liðið örfáir dagar, frá því við hittumst síðast.
Vikan sem liðin er frá því ég kom heim hefur farið í að hitta fjölskylduna og vini; páskamatur hjá Minný að kvöldi annars í páskum, hitti Kínafarana á þriðjudag, búbbulínurnar mínar á Kjalarnesinu á fimmtudag eftir heimsókn til Gurríar á Akranesi. Dúu og Gareth náði ég að hitta á laugardaginn, en þau voru á heimleið til Englands á sunnudag. Ekki nóg með það að ég dreif þau og Guðlaugu vinkonu með mér austur fyrir fjall, í Humarsúpu á Stokkseyri í tilefni af 6 ára brúðkaupsafmæli þeirra, komið var við í sveitabúðinni Sóley í bakaleiðinni. Þau hjónakornin þurftu að vera komin í bæinn um fimmleytið og við rétt náðum því. Þar sem dagurinn var rétt að byrja ákváðum við Guðlaug að skella okkur á Súfistann í Hafnarfirði og boðuðum Eddu Þorleifs þangað. Jæja, Guðlaug fór og við Edda héldum áfram að spjalla. Þar sem klukkan var ekki orðin átta, sáum við okkur leik á borði og drifum okkur í bíó Because I said so með Diane Keaton, voða skemmtileg mynd. Kíkti síðan til Unnar á sunnudaginn, þar er allt í kössum, því hún er að undirbúa flutning. Samt sem áður dreif hún mig með sér í Seltjarnarneskirkju á tónleika á vegum Listaháskóla Íslands, þar var Páll sonur hennar að spila ásamt strengjasveit. Ægilega fínir tónleikar. Svo var allt í einu kominn mánudagur aftur og tími til að fara í vinnuna. Núna rétt í þessu hringdi Sigrún Sveins frá Noregi til að bjóða mér í fermingarveislu þann 29. apríl. Það var ágætt að skrá þetta allt niður, því þótt mér hafi fundist ég vera í spennufalli eftir viðburðarríkar 6 vikur í Washington, sé ég að það er samt sem áður nóg fyrir mig að gera, hér á landi.
Margir nýju vinanna sem ég kynntist úti hafa verið í tölvupóstsambandi og lýsa yfir miklum söknuði eftir þeim stundum sem við áttum saman og eindreginni ósk eftir því að við munum hittast sem fyrst. Það vona ég líka.
Athugasemdir
Rosalega er þetta fallegur hópur þarna í Wa .. DC.
Greinilega nóg að gera hjá þér, elskan mín. Ekki amalegt það. Ferðu til Noregs eða verður veislan hér heima?
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 16.4.2007 kl. 20:59
Já, fallegt fólk að utan sem innan - það má nú segja.
Sigrún kemur með alla fjölskylduna til Íslands og slær upp veislu á Hótel Borg.
Guðrún Eggertsdóttir, 17.4.2007 kl. 08:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.