27.3.2007 | 22:19
Yndislegt, yndislegt, yndislegt.
Yndislegt, yndislegt, yndislegt veður. Nú er klukkan 18:00 að staðartíma og hitinn? Jú, 28°C ég legg ekki meira á ykkur! Að vísu hef ég þurft að húka inni í allan dag, fyrir utan hádegisverðarhléð en samt sem áður: frábært veður.
Af atburðum helgarinnar er það að frétta að við fórum nokkur og skoðuðum American Indian Museum s.l. laugardag en stoppuðum ekki lengi við þar, því ætlunin var að fara í Potomac Mills, sem er mall eða verslanamiðstöð. Það skipti engum togum, við eyddum 6 klukkustundum þar. Ekki spyrja mig hvernig það er hægt, það gerðist bara. Við vorum náttúrulega að stunda helsta sport bandaríkjamanna; að versla. Jú, jú, þegar upp var staðið hafði ég viðað að mér 3 pilsum, bol, ilmvatni, skóm og helling af undirfötum, svo ég get ekki annað en verið ánægð með árangurinn. Sjoppingspríið tók svo mikið á, að ekkert var farið á djammið á laugardagskvöldinu.
Hins vegar komu Olga og J.B. eldsnemma á sunnudagsmorguninn til að taka mig með sér til Önnu frænku í New Jersey. Þangað er 3ja tíma akstur, svo það borgaði sig að leggja snemma af stað. Ferðin gekk vel og við komum á áfangastað á hádegi. Á slaginu. Anna og Don voru afar glöð að sjá okkur og drifu okkur að matarborðinu en Anna hafði verið búin að skipuleggja matarinnkaup í langan tíma, vegna þessa viðburðar; að við kæmum í heimsókn. Hins vegar hafði Don beðið með óþreyju eftir kleinunum hennar Olgu Dísar og leyfði engum að koma nálægt þeim, nema mér. Ég mátti fá 2. Þetta er svona einkadjók hjá þeim feðginunum að hún verður að greiða aðgangseyri í kleinum. Honum þykja þær svo góðar. Við vorum í góðu yfirlæti hjá þeim Önnu og Don. Síðdegis komu Móa og Ken til að borða með okkur kvöldmat en þær eru mæðgur Móa og Anna og þær skiptast á að vera í mat hvor hjá annari, á sunnudögum. Móa og Ken komu með myndir úr brúðkaupi Brian sonar þeirra, sem átti sér stað í Danmörku í fyrra, þegar hann kvæntist henni Mettu sinni. Jæja, eru allir komnir með nóg af ættfræði? Þetta var mjög skemmtilegur dagur, alltaf gaman að hitta hresst fólk, sem hefur gaman af að segja frá skemmtilegum atburðum.
Þegar heim kom upp úr tíu, tók ég eftir að gemsinn minn hafði orðið eftir í bílnum hjá Olgu og J.B. Nú voru góð ráð dýr. Ég hringdi í ofboði í þau hjónakornin. Það vildi svo heppilega til að þau voru ekki komin langt frá hótelinu, svo þau gerðu sér lítið fyrir og snéru við, til að ég yrði ekki símalaus. Sjúkk.........
Allraþjóðakvikindahópurinn boðaði mig síðan í eitt herbergið, sem við erum farin að kalla the community room til að borða ís og horfa á bíómynd.
Semsagt; afar vel heppnuð helgi.
Athugasemdir
Greinilega mjög gaman hjá þér! Njóttu, njóttu! Tíminn líður svo hratt!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.3.2007 kl. 22:48
Úff já, ég nýt þessa í ystu æsar! Hér safna ég mörgum minningum til að ylja mér við í ellinni. Hahahahahahaha.
Guðrún Eggertsdóttir, 28.3.2007 kl. 00:01
Gaman að heyra. Ég segi eins og Gurrí: Njóttu, njóttu
Minný (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 10:28
sól frá mér
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 28.3.2007 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.