19.2.2007 | 21:21
Hjólkoppaævintýri Runólfs Mergjaða
Fyrir nokkrum vikum var vinnustaðapartí, sem er svosem ekkert nýtt né frásagnarvert. Hitt er annað mál að Runólfur Mergjaði bar mig innanborðs að samkomustaðnum. Best að geyma hann í bílskýlinu, hugsaði ég, svo ekkert komi fyrir hann á meðan ég er í burtu. Þarna var ég náttúrulega að storka örlögunum, því bílskýlið er hálfopið þannig að þegar ég kom aftur að Runólfi, hafði öllum hjólkoppunum verið stolið af honum. Segi og skrifa: öllum fjórum. Það fannst mér ekki falleg sjón og ákvað að kippa því í liðinn án nokkurra vafninga.
Æ, hvað heitir hann aftur koppasalinn sem býr við Rauðavatn? spurði ég stúlkuna sem svaraði hjá 118. Hún hafði ekki hugmynd um það. Ég sem hélt að það væri hægt að spyrja þær um hvaðeina; uppskriftir, heimilisviðgerðir o.fl. Valdi koppasali, sagði Kári tengdasonur Steina bróður og ég hringdi aftur í 118 til að fá símanúmerið hjá honum. Auðvitað átti Valdi hjólkoppa, ekki í hundraðatali, heldur í þúsunda ef ekki tugþúsunda. Hann átti ekki í neinum vandræðum með að finna fjögur stykki á hann Runólf Mergjaða. Að vísu reyndust tveir þeirra vera of lausir til að hægt væri að treysta því að þeir færu ekki af í næstu beygju. Heyrðu vilt þú ekki bara fara og ná í aðra, ég bíð bara í bílnum á meðan, það er svo kalt og hált, sagði ég. Sumir keyra í burtu. Ég lofa að keyra ekki í burtu á meðan.
Jæja hann hvarf bak við hús og kom rétt strax með þrjá hjólkoppa, sem allir pössuðu eins og flís við rass. Mig vantaði bara tvo til viðbótar við hina tvo sem höfðu smellpassað í fyrri tilrauninni, þannig að ég fékk þann þriðja með í kaupbæti. Þú verður þá að auglýsa mig í staðinn. Ég er semsagt að efna það loforð núna.
Af hverju er ég að segja þessa sögu núna? Jú, vegna þess að ég komst að því í dag að einhversstaðar úti í myrkrinu liggur hjólkoppur af Runólfi Mergjaða og sá sem ég fékk í kaupbæti, kom sér að lokum vel.
Athugasemdir
Assskottttti!!! Er fólk virkilega að stela hjólkoppum? Heldurðu nokkuð að Valdi hafi tekið þá til að geta selt þér þá aftur?? Nei, ég segi bara svona.
Guðfinna systir þín (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 22:04
Ég lenti í því að þurfa að farga álfelgunum mínum og kaupa ljótar stálfelgur í staðinn. Því keypti ég fjóra hjólkoppa til að bæta útlit þeirra. Þeir voru allir lausir, en bíladellukarlarnir í vinnunni voru fljótir að redda því með plastsplittum. Þeir detta því ekki af nema með aðstoð verkfæra. Koppa-Valdi hefur verið lengi í bransanum, ég man eftir að hafa heimsótt hann með pabba þegar ég var barn !
Svava S. Steinars, 20.2.2007 kl. 01:12
Svava Svanborg, ég þarf að spjalla við bíladellukarlana þína um svona plastsplitti. Ég veit ekkert um frumskóga bílaviðgerða. Kannski ég fái aðstoð þeirra við að festa koppana á? Já ég man eftir Valda koppasala frá því ég var lítil og fór í sunnudagsrúnta með fjölskyldunni austur fyrir fjall. Þá var keyrt fram hjá skilti með áletruninni: „Hjólkoppar til sölu“. Mér fannst það afar merkilegt. Ennþá merkilegra fannst mér þegar ég kom inn í skúrinn þar sem kopparnir eru geymdir í stæðum sem ná upp undir loft og hvernig hann finnur alltaf réttu tegundina er mér alveg hulin ráðgáta.
Minný, það getur vel verið að ég hafi keypt þessa koppa tvisvar, fyrst þegar ég keypti bílinn og aftur hjá Valda. Kannski þjófurinn hafi selt honum þá? Ég hef ekki hugmynd um það. Hins vegar finnst mér að Runólfur Mergjaði þurfi að vera rétt „skóaður“ svo það var ekki um neitt annað að ræða en að kaupa hjólkoppana.
Guðrún Eggertsdóttir, 20.2.2007 kl. 08:49
Vonandi finnur svo bara einhver fátæk einstæð móðir í hjólkoppanauð koppinn sem rúllaði í burtu. Örugglega lent þar sem hans var þarfnast.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 20.2.2007 kl. 12:26
Það er alveg rétt hjá þér, ég get huggað mig við það
Guðrún Eggertsdóttir, 20.2.2007 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.