Bloggfærslur mánaðarins, júní 2023
3.6.2023 | 07:59
02.06. Ekki er sopið kálið...
Flugtak frá Changiflugvelli tafðist og flugið tók lengri tíma en gert var ráð fyrir, svo klukkutíminn og 20 mínúturnar sem við áttum að hafa í Kaupmannahöfn voru komnar niður í 45 mínútur, þegar vélin lenti loksins á áfangastað.
Við lendingu áttum við öll skilaboð um að við hefðum verið bókuð á annað flug, með öðru flugfélagi kl. 13:30 þennan sama dag eða um 6 tímum seinna en vélin sem við ætluðum að fara með. Í ljós kom að þessi ósköp giltu ekki einungis um okkur 15 Rótarýfélaga heldur einnig 29 aðra farþega sem voru um borð í vélinni frá Singapore Airlines eða alls 44 farþega. Í hópnum voru m.a. starfsmenn Singapore Airlines sem ætluðu að heimsækja Ísland.
Hvað var tekið til bragðs? Nú, að hlaupa frá hliði C (númer eitthvað voða hátt) í gegnum vegabréfaskoðun (töf) að hliði B7 og vona það besta. Til allrar hamingju hafði SAS vélin sem við vorum upphaflega bókuð á, verið sein inn, svo það hjálpaði.
Við tóku sammingaviðræður við konuna sem stóð við hlið B7. Samningaviðræður sem ég fylgdist ekki nógu vel með en til að gera langa sögu stutta komumst við, allavega 15 Rótarýfélagar, kannski líka einhverjir af hinum 29, um borð í vélina.
Það get ég sagt að ég var mjög fegin að málið leystist með þessum hætti og geri ráð fyrir að það gildi einnig um ferðafélaga mína. Með þessu lengdist ferðatíminn úr 27 klst. og 8 mín. í 27 klst. og 50 mín. Við bætist að hópurinn lagði af stað frá hótelinu í Melbourne með 3 klst. og 40 mín. fyrirvara og að fá töskur og koma sér heim tók um 1,5 tíma. Alls 33 klst. frá hótelinu og heim til mín. Við unnum þó þá 10 tíma sem við höfðum tapað á að fara yfir öll tímabeltin til Melbourne.
Frábærri ferð til Ástralíu var lokið en margar stórkostlegar minningar bættust í minningabankann og vináttan sem myndaðist er ómetanleg.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2023 | 14:31
01.06. Á heimleið tralalalala
Heimflug í dag. Þrír leggir: Melbourne -> Singapore, Singapore -> Kaupmannahöfn og loks Kaupmannahöfn -> Keflavík, alls 27 klukkutímar og 8 mínútur með stoppinu í Singapore og Kaupmannahöfn.
Við tókum tvo bíla frá hótelinu út á flugvöll og höfðum góðan tíma, sem betur fer, því þegar komið var á flugvöllinn gátum við, almúginn, ekki tékkað okkur inn á þjónustuborði því slíkt var einungis mögulegt fyrir " Business Class" farþega eða þaðan af betra fólk. Það að ætla að gera þetta sjálf, var ekki í boði fyrir svona marga flugleggi. "You need special service", var svarið sem tækin gáfu okkur. Slík þjónusta var hvergi í augsýn. Til að gera langa sögu stutta, var fengin kona frá Aussieavia (eða hvað sem Isavia heitir í Ástralíu) sem fékk það hlutverk að skrá okkur og farangurinn alla leið. Hún gerði það með bros á vör, þrátt fyrir bága vinnuaðstöðu en hún stóð úti á miðju gólfi við lítinn skjá og með prentarann í skúffu fyrir neðan. Þegar við vorum öll komin með brottfararspjöld og farangurinn farinn frá okkur eftir einhverju færibandi, var liðinn 1,5 tími frá því við stigum inn í flugstöðina. Úrið sagði mér að gott væri fyrir mig, að gera nokkrar öndunaræfingar, þar sem blóðþrýstingurinn væri að hækka töluvert. Eins og ég vissi það ekki.
Þegar þetta er skrifað sitjum við á Changiflugvelli í Singapore, bíðum eftir fluginu til Kaupmannahafnar og búin að vinna aftur tvo tíma af þeim 10 sem við höfðum misst á því að fara til Melbourne. Flugtak til CPH er áætluð kl. 00:05 2. júní en þá ætti klukkan að vera 16:05 heima á Íslandi en áætluð lending á KEF er kl. 9:45 að morgni 2. júní.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)