31.5.2023 | 23:49
31.05. Síðasti dagur þingsins
Enginn viðburður var á dagskrá í Rod Laver Arena fyrr en kl 15:00 í dag þegar lokaathöfn heimsþingsins átti að fara fram. Nokkrir félaganna höfðu látið vel af sýningunni "Monet and Friends" sem stendur yfir í Lumi sýningarsalnum í ráðstefnuhöllinni svo það lá beinast við að kíkja á hana.
Sýningin er skemmtilega sett upp og eins og nafnið gefur til kynna er um sýningu á verkum impressionista frá s.hl. 19. aldar að ræða.
Það er erfitt að lýsa uppsetningunni, svo ég læt mynd fylgja. Sú sem þetta ritar sér allavega ekki eftir að hafa látið það eftir sér að skoða sýninguna.
Lokaathöfn heimsþingsins hófst á atriðum úr "The Greatest Show" sem er n.k. dans-/sirkussýning, mikið fjör og mikið gaman.
Næst á svið var "The Bee Gee s Show" þar sem vinsælustu lög hljómsveitarinnar voru flutt og sýnt úr "Saturday Night Fever" og fleiri markverðum atburðum á ferli hljómsveitarinnar á meðan. Margir ef ekki flestir ráðstefnugesta dönsuðu og sungu með.
Þá tóku við aðvarlegri atriði m.a. tók nýr alheimsforseti, Gordon McNally, við keflinu af Jennifer Jones en hans einkunnarorð verða "Create Hope in the World". Búið er að tilkynna um alheimsforseta fyrir 2024-2025 en það er Stephanie Ulchich. Önnur konan sem gegnir þessu embætti. Eftir valdaafsal Jennifer Jones, veitingu ýmissa viðurkenninga og þakklætisvotta var þinginu slitið.
Hópurinn ásamt þeim mæðgum Maríu Björk Ingvarsdóttur og Ásthildi Ómarsdóttur borðaði kvöldverð á japönskum stað í nágrenni hótelsins Izakaya Minami. Svo ég vitni í einn félagann þá var þetta "Frábært lokakvöld á ferð okkar rótarýfélaga á heimsþing Rótarý í Melbourne. Ferðalag sem seint gleymist og skilur eftir ógleymanlegar minningar og ómetanlega vináttu"
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.