26.5.2023 | 10:51
25.05. Flugið var fellt niður!
Þá stóð þriðji flugleggurinn fyrir, flugið frá Sydney til Melbourne, sem vera átti kl. 11:00. Við vorum komin út á flugvöll, búin að tékka inn og fara í gegnum öryggisskoðun og ég var að fara að gate 49 þegar tilkynnt var að flugið hafi verið fellt niður!
Nú voru góð ráð dýr. Þegar þannig stendur þá er gott að hafa mann sem vinnur í tölvudeild í banka í hópnum og fara að ráðum hans: ná í farangurinn og reyna að finna annað flug. Það tókst, hluti hópsins (9 manns) fékk flug kl. 12:30 með Qantas, hinn hlutinn (6 manns) kl 15:10. Nema hvað, Quantas er í annarri flugstöðvarbyggingu. Þá tóku við nokkrar ferðir niður og upp rúllustiga þar til við komumst að réttu afgreiðsluborði en þá var ekki mögulegt að tékka okkur inn fyrr en Qantas samþykkti hópinn, nokkra tugi farþega, sem lent höfðu í sömu vandræðum og við. Við tóku nokkrar (nokkuð margar) spennuþrungnar mínútur en allt leystist þetta að lokum og við komumst til Melbourne þó það hafi verið nokkru seinna en við ætluðum. Þegar komið var upp á hótel bárust fréttir að stórbruna í Sydney ekki langt frá gististaðnum okkar. Þá var komið að tilgangi ferðarinnar: heimsþingi Rótarý í Melbourne. Flest ef ekki öll svona þing hefjast á skráningu þátttakenda og það á einnig við um þetta þing. Það voru því galvaskir félagar sem brugðu undir sig betri fætinum og örkuðu að ráðstefnuhöllinni, til að færa sönnur á hver við værum og fá afhenta aðgangsheimild með helstu upplýsingum um hvern og einn, því við vorum flest löngu búin að skrá okkur. Allt gekk að óskum og nú er okkur ekkert að vanbúnaði að sækja þingið sem hefst laugardaginn 27. maí.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.