22.5.2023 | 09:09
Stóra kóralrifið
Það mátti nánast finna fyrir spenningnum í ferðafélögunum í morgun, þegar safnast var saman í anddyri hótelsins til að verða samferða að Reef Fleet Terminal. Stundin var að nálgast, sú sem allir höfðu beðið eftir: nú skyldi stóra kóralrifið skoðað!
Fljótlega eftir að við vorum mætt til að skrá okkur inn, mætti skemmtiegur smávaxinn karl, Eddie, sem var alltaf að spauga um nánast allt sem honum datt í hug. Í ljós kom að hann var allt-í-öllu um borð og lagði okkur lífsreglurnar um hvað má og hvað má ekki í svona ferðum, hvernig ganga á um "blautu" svæðin annars vegar og þau "þurru" hinsvegar. Þegar upp var staðið var augljóst að Eddie vissi nákvæmlega hvað hann var að gera með öllu spauginu.
Ég get ekki annað en dáðst að því, hvernig haldið var utan um allt um borð: við skráningu fengu allir sitt númer (við höfðum nr. 1-14) en það auðveldaði allt utanumhald um farþegana, því ekki þurfti að kalla upp nöfn á einhverjun óskiljanlegum tungumálum, heldur bara númer viðkomandi og allir sáttir t.d. farþegar nr. 86, 87 og 88 sem ætluðu i þyrluflug, eru beðnir um að mæta á (tiltekinn stað)
Þegar það var orðið ljóst að allar reglur hefðu komist til skila var siglt af stað. Við tók um 1,5 tíma sigling að "Norman Reef" og "Hastngs Reef" í misjafnlega úfnum sjó.
Ekki má kasta akkeri í rifið vegna verndunarsjónarmiða en skipið er fest við steypta stöpla, sem komið hefur verið fyrir. Hver og einn farþegi hafði þá þegar mátað sundfit, fengið snorkl-grímu (er til íslenskt orð yfir svoleiðis apparat) og fengið búning sem á að verja fyrir stingfiski. Allt þetta átti að geyma í hólfum með númeri viðkomandi. Það kom alltaf betur og betur í ljós hvað númerakerfið er sniðugt.
Allir, sem vettlingi gátu valdið eða frekar: allir sem treystu sér til, hentu sér í sjóinn, til að líta dýrðina undir yfirborðinu: allir mögulegir litir á fiskum í magskomar stærðum og gerðum, fyrir utan hin ótrúlegustu form og liti á kóröllunum sjálfum. Þvílíkt undur! Allir fengu þá leiðsögn sem þeir þurftu af þrautþjálfuðu starfsfólki.
Þegar fyrra rifið hafði verið skoðað, var haldið að hinu síðara en á meðan á stíminu stóð var borinn fram matur: fiskur, rækjur og grillað nautakjöt, fjórar tegundir af salati og annað eins af sósum. Skipulagið sannaði sig enn og aftur: hver og einn hafði sitt fasta sæti, svo það hafði ekki verið neitt kapphlaup í upphafi, til að tryggja sér besta sætið.
Það var ekkert síðra að skoða rifið á seinni áfangastaðnum en þar bættist við sá möguleiki að fara yfir í annað skip, sem er með hálfgerðum kafbáti undir þiljum. Sá er með gegnsæjum botni og veggjum, svo það er líka hægt að skoða herlegheitin með þeim hætti.
Á stíminu heim hjó báturinn veruega en enginn úr hópnum varð sjóveik(ur). Þá kom í ljós að fíflagangur Eddies gerði sitt gagn. Með honum fékk hann fólk til að gleyma vanlíðan sinni.
Eftir dásamlegan dag við rifið fór hópurinn í kvöldmat á Dundees by the Waterfront og það var engin(n) svikinn af því. Í ljós kom að ein úr hópnum átti afmæli. Hún fékk eftirrétt og söng af því tilefni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.