19.5.2023 | 01:12
Krókódílar og termítabú
Ferð í Kakadu þjóðgarðinn hófst á siglingu á Adelaide ánni til að skoða krókódíla. Já og til að sjá þá gleypa kjötbita sem umsjónarmennirnir ögruðu þeim með. Við náðum að komast í færi við nokkra og allir fengu þeir kjötbita að lokum.
Það var langt á milli staða sem voru á dagskránni, lengstu leggirnir tóku um 2 tíma. Á leiðinni sáum við stærðarinnar termítabú og leiðsögumaðurinn sagði að þau hæstu gætu verið um 9 metra há, sem þýðir að þau eru um 90 ára gömul. Merkilegt. Termítarnir hafa gert göng um mjög stórt svæði, sem verður til þess að halda lífi í skógunum, því vatnið berst eftir þessum göngum.
Viða í skóginum voru litlir eldar, til að halda skóginum á lífi en einhvern veginn tekst fólki að koma í veg fyrir að skógareldar fari af stað. Það er nauðsynlegt að gera þetta, því sum fræ koma ekki til, nema eldurinn opni þau.
Krókódílum hefur fjölgað mikið, jafnvel svo að þar sem fólk synti áður í sjónum er ekki lengur óhætt að synda. Við fórum að stað sem heitir Cahills Crossing, sem er brú yfir í byggðir frumbyggja en þarna er stífla og vegurinn undir vatni en það er ekki óhætt að fara fótgangandi þarna yfir, því það er líklegra en ekki, að krókódílarnir nái þér. Það gerðist síðast í síðustu viku.
Merkilegast var þó að koma til Ubirr, þar sem eru mjög gamlar myndir málaðar á kletta, þær eru taldar vera mörgþúsund ára gamlar. Frumbyggjarnir höfðu ekki ritmál, svo þeir máluðu myndir t.d. til að kenna yngri kynslóðum hvað væri ætt af veiðidýrunum. Þarna var mynd af tasmaníutígrinum, sem er löngu útdauður. Það er ekki til nein aðferð til að aldursgreina þessar myndir.
Í Bowali Visitors Centre mátti sjá merkilegt tímatal frumbyggjanna (sjá mynd á steininum).
Það kom fram að tveir af stöðunum sem við heimsóttum eru á heimsminjaskrá SÞ, þjóðgarðurinn sjálfur (sem er á stærð við Sviss) og klettamyndirnar í Ubirr.
Á heimleiðinni sáum við appelsínugula sól og afar fallegt sólarlag. Það voru hamingjusamir íslendingar sem komu "heim" eftir 13 klst. ferð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.