15.2.2007 | 15:46
Runólfur Mergjaði
Einkennilegt hef ég hugsað þegar ég gef stefnuljós til vinstri. Af hverju er slátturinn í stefnuljósinu miklu hraðari þegar ég þarf að taka vinstri beygju en þegar ég vil fara til hægri? Runólfur Mergjaði (Renault Megane) fór nefnilega á verkstæði fyrir nokkru og það var skipt um háspennukefli í honum blessuðum. Lætin í vinstra stefnuljósinu hófust eftir það. Það hefur farið eitthvað úrskeiðis þegar gert var við bílinn. hugsaði ég. Gat nú verið. Á þessa leið voru hugsanir mínar í rúma viku, í hvert skipti sem ég beygði til vinstri.
Það var ekki fyrr en ég skrapp í Birtíng og skilaði lánsbókum til Gurríar að mér hugkvæmdist að koma við hjá umboðinu og benda starfsfólkinu þar á að eitthvað hafi nú ekki farið eins og til var ætlast í lagfæringunni um daginn. Eins og alkunna er, þá vinnur hún rétt hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum. Ég dreif mig þangað og króaði góðlegan verkstæðismann af, dró hann út í bíl, svo hann gæti heyrt þessi ósköp með eigin eyrum og jafnframt það að um stóralvarlegt mál væri að ræða.
Það er farin pera í stefnuljósinu vinstramegin að framan. Hefur ekkert að gera með viðgerðina um daginn var úrskurðurinn. Ok, það var semsagt ekki bíla-krabbamein eða eitthvað þaðan af verra sem gekk að blessuðum bílnum en mér leið samt eins og ég væri voða ljóshærð.
NB. Í mínum huga getur það komið fyrir fólk með hinn aðskiljanlegasta háralit að vera ljóshærð(ur). Sjálf er ég brunette.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.