11.2.2007 | 11:19
Morgunstemming
Komin inn eftir góðan göngutúr. Svei mér ef það er ekki allra meina bót að drífa sig í útigallann, skella á sig góðum skóm og vaða út. Þramma þetta stefnulaust með sína þungu þanka. Áður en langt um líður er brúnin farin að léttast, sólin að hækka á lofti, skín á húsgaflana sem snúa í suðaustur, hitinn við frostmark, allt eitthvað svo ferskt. Göngugarpurinn réttir úr sér við að dást að umhverfinu, fáir á ferli, þó er einn og einn útivið í sama tilgangi og undirrituð. Gott að setjast við tjörnina og kíkja á endur og gæsir, nokkrir svanir eru þarna líka. Hópurinn syndir í átt til mín og heldur að ég láti brauðbita af hendi rakna en ég býð ekki upp á neitt, tók ekkert með mér.
Eftir rúmlega klukkutíma útiveru er ég komin inn, með rjúkandi tebolla við höndina, freyðibaðið alveg að verða tilbúið og Creadence Clearwater Survival á fóninum.
Gleðilegan sunnudag öllsömul.
Athugasemdir
Gleðilegan sunnudag sömuleiðis. Ég var einmitt að hugsa um að ná í fréttablaðið og fá mér morgunmat. Það er svo góð samsetning.
Edda Guðrún (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 11:41
sömuleiðis...
Ólafur fannberg, 11.2.2007 kl. 12:06
Ummm, góður sunnudagur hjá þér!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.2.2007 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.