25.5.2023 | 07:20
Frá Cairns til Sydney
Eftir stutt stopp í Cairns var komið að því að heimsækja Sydney, sem virðist mjög skemmtileg borg við fyrstu sýn. Hópurinn var mættur rétt fyrir kl. 8:00 að morgni á flugvöllinn, tímanlega fyrir flugið (leggur nr. 2 innanlands í Ástralíu)sem var á áætlun kl 10:00. Eftir tæplega þriggja tíma flug var lending í Sydney.
Það hefur skapast sú venja í hópnum að sameinast í leigubíla til að komast á væntanlegan gististað og ekki var brugðið út af venjunni í þetta skiptið. Hópurinn skiptist á tvo bíla og bílstjórinn í bílnum "mínum" vildi semja um fast verð, 100 AUD og það var samþykkt (þó það hafi gætt mótmæla). Þegar komið var á áfangastað, kom í ljós að farþegarnir i hinum bilnum höfðu ákveðið að greiða eftir mæli. Ef ég man rétt, greiddu þau um 26 AUD meira en við fyrir sömu leið. Svona leikur lánið við mann.
Við fengum herbergi á Rydges World Square Sidney sem er 4,5 stjörnu hótel og það uppfyllti kröfur mínar um gistingu. Umhverfi hótelsins er mjög líflegt og margir veitingastaðir i nágrenninu. Ég var svo heppin að hitta tvo félaga úr hópnum og við fengum okkur kaffi og köku á næsta horni, á "Macciato".
Eftir að ég sagði skilið við þau tvö tók ég neðanjarðarlestina að Circular Quai sen er við höfnina, labbaði stuttan spöl og þá blasti dýrðin við: Óperuhús Sidney og stálbrúin sem tengir miðborgina við úthverfin. Eðlilega stóðst ég ekki mátið og tók sjálfur, því til sönnunar að ég hafi verið við þessi minnismerki Sydneyborgar.
Það þarf ekki að kaupa sérstaka miða í neðanjarðarlestina, heldur er nóg að láta skynjara við hliðið lesa kreditkortið og þá opnast hliðið. Sama gerist þegar farið er út á áfangastað og þá er einungis rukkað fyrir ferðina sem var farin. Þetta fannst mér sniðugt. Starfsmaður á neðanjarðarlestarstöðinni ráðlagði mér þetta, því þessi aðferð er miklu ódýrari heldur en að kaupa kort. Alltaf að græða ;-)
Hér kemur svo myndin af mér og brúnni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2023 | 08:50
Kuranda og regnskógurinn
Við vorum alls 10 sem fórum saman í ferðina "Scenic Railway and Skyrail" eins og kemur fram í færslu um viðburði síðasta laugardags. Hópurinn þurfti að koma sér að Novotel í næstu götu og var ferjaður að lestarstöð fyrir lestina frá Cairns til Kuranda.
Lestarteinarnir voru byggðir þar sem gullæði greip um sig á svæðinu á síðari hluta 19. aldar og ferðin að Kuranda var ill yfirferðar á þeim tíma. Frumbyggi, Christie Palmerson, fékk það hlutverk að finna leið fyrir lestina til að tengja gullgrafarasvæðið við sjó. Bygging teinanna hófst árið 1887 og þykir ein metnaðarfyllsta uppsetning lestarteina sem gerð hefur verið. Alls voru um 1.500 menn sem stóðu að þessu verki sem nær yfir 33 km. Á leiðinni eru 15 jarðgöng sem voru handgerð, 55 brýr og 98 beygjur. Hækkunin er 327 m. yfir sjávarmál. Það snéru ekki allir heilir heim. Ef ég man rétt létust 33 við byggingu verksins. Það var einstök upplifun að ferðast með lestarvögnunum sem flestir eru frá fyrri hluta 20. aldar. Áfangastaðurinn var Kuranda, sem er ekki lengur námubær, heldur ferðamannastaður en þar búa rétt um 3.000 íbúar.
Rétt við innkomuna i bæinn sáum við Rótarýmerkið á áberandi stað. Það má því draga þá ályktun að það sé starfandi klúbbur í bænum.
Með farmiðanum fylgdi afsláttur að fiðrildasafni, fuglasafni og Koalabjarnagarði. Í bænum er hægt að kaupa skartgripi úr ópalsteini, belti úr krókódílaskinni, sumarföt og leðurhatta, fyrir utan alla möguleikana á að fá sér í gogginn. Á aðalgötunni sat frumbyggi og spilaði á didgeridoo.
Gert var ráð fyrir um tveggja tíma stoppi í bænum. Þegar sá tími var uppurinn var næst á dagskránni að fara Skyrail ferð yfir regnskóginn. Mig skortir orð til að lýsa regnskóginum eða því hvernig er að skoða hann ofanfrá, eins og fuglinn fljúgandi. Stórfenglegt er kannski orðið sem nær því best. Á leiðinni niður áttum við þess kost að fara út á tveimur stoppistöðvum og auðvitað notfærðum við okkur það. Þarna gafst færi á að ganga um regnskóginn, sem er líka ólýsanlegt, - ilmurinn, kyrrðin, litirnir, fjölbreytni trjátegundanna og svo margt annað.
Það voru hamingjusamir félagar sem var skilað á fyrrnent Novotel að ferð lokinni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2023 | 09:09
Stóra kóralrifið
Það mátti nánast finna fyrir spenningnum í ferðafélögunum í morgun, þegar safnast var saman í anddyri hótelsins til að verða samferða að Reef Fleet Terminal. Stundin var að nálgast, sú sem allir höfðu beðið eftir: nú skyldi stóra kóralrifið skoðað!
Fljótlega eftir að við vorum mætt til að skrá okkur inn, mætti skemmtiegur smávaxinn karl, Eddie, sem var alltaf að spauga um nánast allt sem honum datt í hug. Í ljós kom að hann var allt-í-öllu um borð og lagði okkur lífsreglurnar um hvað má og hvað má ekki í svona ferðum, hvernig ganga á um "blautu" svæðin annars vegar og þau "þurru" hinsvegar. Þegar upp var staðið var augljóst að Eddie vissi nákvæmlega hvað hann var að gera með öllu spauginu.
Ég get ekki annað en dáðst að því, hvernig haldið var utan um allt um borð: við skráningu fengu allir sitt númer (við höfðum nr. 1-14) en það auðveldaði allt utanumhald um farþegana, því ekki þurfti að kalla upp nöfn á einhverjun óskiljanlegum tungumálum, heldur bara númer viðkomandi og allir sáttir t.d. farþegar nr. 86, 87 og 88 sem ætluðu i þyrluflug, eru beðnir um að mæta á (tiltekinn stað)
Þegar það var orðið ljóst að allar reglur hefðu komist til skila var siglt af stað. Við tók um 1,5 tíma sigling að "Norman Reef" og "Hastngs Reef" í misjafnlega úfnum sjó.
Ekki má kasta akkeri í rifið vegna verndunarsjónarmiða en skipið er fest við steypta stöpla, sem komið hefur verið fyrir. Hver og einn farþegi hafði þá þegar mátað sundfit, fengið snorkl-grímu (er til íslenskt orð yfir svoleiðis apparat) og fengið búning sem á að verja fyrir stingfiski. Allt þetta átti að geyma í hólfum með númeri viðkomandi. Það kom alltaf betur og betur í ljós hvað númerakerfið er sniðugt.
Allir, sem vettlingi gátu valdið eða frekar: allir sem treystu sér til, hentu sér í sjóinn, til að líta dýrðina undir yfirborðinu: allir mögulegir litir á fiskum í magskomar stærðum og gerðum, fyrir utan hin ótrúlegustu form og liti á kóröllunum sjálfum. Þvílíkt undur! Allir fengu þá leiðsögn sem þeir þurftu af þrautþjálfuðu starfsfólki.
Þegar fyrra rifið hafði verið skoðað, var haldið að hinu síðara en á meðan á stíminu stóð var borinn fram matur: fiskur, rækjur og grillað nautakjöt, fjórar tegundir af salati og annað eins af sósum. Skipulagið sannaði sig enn og aftur: hver og einn hafði sitt fasta sæti, svo það hafði ekki verið neitt kapphlaup í upphafi, til að tryggja sér besta sætið.
Það var ekkert síðra að skoða rifið á seinni áfangastaðnum en þar bættist við sá möguleiki að fara yfir í annað skip, sem er með hálfgerðum kafbáti undir þiljum. Sá er með gegnsæjum botni og veggjum, svo það er líka hægt að skoða herlegheitin með þeim hætti.
Á stíminu heim hjó báturinn veruega en enginn úr hópnum varð sjóveik(ur). Þá kom í ljós að fíflagangur Eddies gerði sitt gagn. Með honum fékk hann fólk til að gleyma vanlíðan sinni.
Eftir dásamlegan dag við rifið fór hópurinn í kvöldmat á Dundees by the Waterfront og það var engin(n) svikinn af því. Í ljós kom að ein úr hópnum átti afmæli. Hún fékk eftirrétt og söng af því tilefni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2023 | 13:07
Næsti áfangastaður: Cairns
Flugið til Cairns gekk vel og tók ekki nema 2,5 tíma. Við vorum komin á hótelið um kl. 11:00 en það stóð ekki til að afhenda okkur herbergin fyrr en kl. 15:00, svo það þurfti að brúa það bil. Farangrinum var komið i geymslu og flestir ákváðu að taka þátt í ferð sem kölluð er "Kuranda Skyrail & Scenic Rail Tour" og verður farin næsta mánudag 22. maí. Það verður spennandi og mælt hefur verið með þessari ferð við mig (takk Malla).
Það tók ekki langan tíma að panta ferðina en þegar við fréttum af markaði sem haldinn er hvern laugardag í Cairns, ákváðu nokkrir úr hópnum að kíkja á hann þ.á.m. sú sem þetta skrifar. Markaðurinn er frekar hafðbundinn, föt, heimatilbúnir skartgripir, margskonar matur en það sem stóð upp úr voru ávextirnir, margar tegundir, í öllum hugsanlegum litum og glænýir.
Að lokinni skoðunarferðinni um markaðinn var haldið að Cairns Waterfront, sem er stórkostlegt svæði niðri á strönd "Cairns Esplanade Lagoon", Þarna er hægt að njóta þess að eyða tíma, smábátahöfninn í nokkura skrefa fjarlægð og "Reef Fleet Terminal" þaðan sem við tökum bátinn a morgun til að skoða "The Great Barrier Reef". Veitingastaðurinn Pier er líka á þessu svæði og við göngufélagarnir fengum okkur "Fish and Chips" hjá þeim.
Á göngu okkar heim á hótel eftir Esplanade hittum við ferðafélaga úr hópnum og fengum okkur ís.
Skilaboð til einustu systur minnar: Í Cairns er gata sem heitir "Minnie Street", - geri aðrir betur.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2023 | 08:22
Föstudags...
Dagurin byrjaði rólega, sem var gott því ég var úrinda eftir gærdaginn. Einungis tvö úr hópnum fóru í skipulagða ferð til Tiwi-eyja, sem boðið hafði verið upp á.
Seint og um síðir ákvað ég að kíkja aðeins á göngugötuna, því þetta var síðasti dagurinn í Darwin. Eftir huggulegan Brunch ákvað ég að kíkja í "Lundabúðir" eða kannski er hægt að kalla þær "Búðir með list frumbyggja" eða "Leðurhattabúðir". Þar kennir ýmissa grasa af hvorutveggja. Mér fannst skemmtilegra að fara á listasöfn með list frumbyggja, sem hefur sín sérkenni. Það hefði verið gaman að fjárfesta í mörgu af list þeirra en þar sem töskustærð er takmarkandi þáttur, keypti ég lítið listaverk, sem hægt er að rúlla upp og tekur lítið pláss í farangrinum.
Úr því að ég var komin í nálægð við þinghús Northern Territory, lá það beint við að fara þangað. Þá hafði stólum verið raðað fyrir framan aðalinnganginn, ræðuborði með míkrafóni hafði verið komið fyrir og ljósmyndarar höðu stillt sér upp. Einhver athöfn var ekki í uppsiglingu en var ekki byrjuð. Ég gaf mig á tal við starfsmann og spurði hvað væri á seyði. Hann svaraði en ég var engu nær. "Legacy Centenary Torch" var kominn til Darwin. Eftir því sem ég kemst næst var verið að minnast atburðar sem átti sér stað í stríðinu a.m.k. voru margir orðum skreyttir hermenn sem komu í skrúðgöngu inn á svæðið. Sá sem leiddi gönguna (óeinkennisklæddur) bar kyndil og kveikti eld með honum. Allt var þetta mjög hátíðlegt.
Afsakið að myndin er á hlið en ég kann ekki að snúa henni.
Mér var hleypt inn í þinghúsið en það var enginn þingfundur í gangi. Það var samt skemmtilegt að skoða húsið. Á leið minni út heilsaði mér maður "How are you?" og ég tók undir. Seinna þegar ég skoðaði myndir af þingmönnunum, komst ég að því, að þarna var enginn annar en þingforsetinn og ég hafði ekki hugmynd um heiðurinn, sem mér hafði hlotnast.
Það hafði verið pantað borð fyrir allan hópinn á "Moorish" sem er skammt frá hótelinu. Allur hópurinn mætti, líka þau sem höfðu farið til Tiwi-eyja. Þá kom í ljós að það voru mikil mistök að hafa ekki farið í þá ferð, því hún var miklu skemmtilegri en ferðin í gær, þó sú ferð hafi verið afbragðsgóð. Það er jafnvel þess virði að efna í aðra Ástralíuferð, til að komast til Tiwi-eyja.
Maturinn bragðaðist mjög vel, félagsskapurinn góður og kvöldið mjög vel heppnað. Við fljúgum til Cairns eldsnemma í fyrramálið. Hótelið verður yfirgefið kl. 5:00.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2023 | 01:12
Krókódílar og termítabú
Ferð í Kakadu þjóðgarðinn hófst á siglingu á Adelaide ánni til að skoða krókódíla. Já og til að sjá þá gleypa kjötbita sem umsjónarmennirnir ögruðu þeim með. Við náðum að komast í færi við nokkra og allir fengu þeir kjötbita að lokum.
Það var langt á milli staða sem voru á dagskránni, lengstu leggirnir tóku um 2 tíma. Á leiðinni sáum við stærðarinnar termítabú og leiðsögumaðurinn sagði að þau hæstu gætu verið um 9 metra há, sem þýðir að þau eru um 90 ára gömul. Merkilegt. Termítarnir hafa gert göng um mjög stórt svæði, sem verður til þess að halda lífi í skógunum, því vatnið berst eftir þessum göngum.
Viða í skóginum voru litlir eldar, til að halda skóginum á lífi en einhvern veginn tekst fólki að koma í veg fyrir að skógareldar fari af stað. Það er nauðsynlegt að gera þetta, því sum fræ koma ekki til, nema eldurinn opni þau.
Krókódílum hefur fjölgað mikið, jafnvel svo að þar sem fólk synti áður í sjónum er ekki lengur óhætt að synda. Við fórum að stað sem heitir Cahills Crossing, sem er brú yfir í byggðir frumbyggja en þarna er stífla og vegurinn undir vatni en það er ekki óhætt að fara fótgangandi þarna yfir, því það er líklegra en ekki, að krókódílarnir nái þér. Það gerðist síðast í síðustu viku.
Merkilegast var þó að koma til Ubirr, þar sem eru mjög gamlar myndir málaðar á kletta, þær eru taldar vera mörgþúsund ára gamlar. Frumbyggjarnir höfðu ekki ritmál, svo þeir máluðu myndir t.d. til að kenna yngri kynslóðum hvað væri ætt af veiðidýrunum. Þarna var mynd af tasmaníutígrinum, sem er löngu útdauður. Það er ekki til nein aðferð til að aldursgreina þessar myndir.
Í Bowali Visitors Centre mátti sjá merkilegt tímatal frumbyggjanna (sjá mynd á steininum).
Það kom fram að tveir af stöðunum sem við heimsóttum eru á heimsminjaskrá SÞ, þjóðgarðurinn sjálfur (sem er á stærð við Sviss) og klettamyndirnar í Ubirr.
Á heimleiðinni sáum við appelsínugula sól og afar fallegt sólarlag. Það voru hamingjusamir íslendingar sem komu "heim" eftir 13 klst. ferð.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2023 | 07:19
Ástralía - Darwin, dagur 1
Það var alveg óþarfi að kvíða þessu. Ferðin til Darwin gekk svona ljómandi vel. Ferðafélagarnir mættu allir á tilsettum tíma í Leifsstöð. Flugvélin til Frankfurt lagði af stað á réttum tíma og ferðin mikla hófst.
Þegar 36 tímar voru liðnir frá því ég var sótt heim til mín var ég komin inn á þetta fína herbergi í miðbæ Darvin. Herbergið er áreiðanlega einir 40 fm. svo ég get ekki kvartað.
Orkan var ekki meiri en svo að ég rétt náði á ítalskan veitingastað, fékk mér Lasagna Bolonese, bragðbætt með alveg ágætu Merlot rauðvíni. Þegar ég hafði fengið nægju mína fór ég bara "heim" að sofa.
Ég svaf í 12 tíma samfleytt og veitti ekki af hvíldinni. Þegar ég var klædd og komin á ról og búin að setja upp sumarhattinn, lagði ég af stað að "The Waterfront" sem er stærðarinnar svæði með ráðstefnuhöll, veitingastöðum, litlu lóni - svipuðu og er í Nauthólsvík og fleiru áhugaverðu. Þarna var margt um manninn og ég hitti hjón frá Melbourne, sem fannst merkilegt að hitta íslending og sögðust vera með Ísland á listanum yfir væntanleg ferðalög.
"Hop on, hop off" var í göngufæri, svo ég ákvað að fá mér far með þeim. Eins og gera má ráð fyrir, var keyrt á milli staða á borginni og sagt frá því áhugaverðasta. Ég vissi t.d. ekki af mannskæðum hvirfilbyl (cyclone Tracy), sem varð á jóladag 1974 og hafði mjög alvarlegar afleiðingar. Alvarlegast var að Darwin-búar náðu ekki sambandi við umheiminn til að láta vita, hvað hafði gerst. Umheimurinn vissi ekki af þessum hörmungum og þess vegna barst aðstoð ekki strax til borgarinnar. Darwin er í "The Northen Territory" sem er á stærð við Ísland og íbúarnir í borginni eru um 240 þúsund talsins.
Umhverfi hótelsins hefur verið kannað og mér líst vel á.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2023 | 18:22
Tæknin maður, tæknin
Bara örblogg í þessa skipti, til að segja frá því að ég sótti pakka frá Amazon í dag. Hann kom með DHL sem er með póstboxin innst í bílakjallaranum undir Bónus á Smáratorgi. Staðsetningin er ekki traustvekjandi fyrir þá, sem hafa horft á marga krimma. Gerast glæpirnir ekki oftast í niðdimmum bílakjöllurum um miðjar nætur? Mér stafaði að vísu engin hætta af því að fara á þennan stað, þar sem ég var á ferðinni síðdegis og fór því hnarreist að pósboxum DHL til að sækja pakkann.
Það er víst best að tilkynna það strax að ég á engra hagsmuna að gæta, þegar ég lýsi því yfir hversu ánægð ég er með sendinguna. Ég er hvorki meira né minna í sjöunda himni. Hvað var í pakkanum sem ég sótti? Jú, samanbrjótanlegt lyklaborð, sjá mynd:
Það er ekki langt síðan ég vissi að þessi snilld væri til en nú þarf ég ekki að taka spjaldtölvu með mér til Ástralíu, hvað þá fartölvu, tengi bara nýja lyklaboðið með Bluetooth við símann og volá: bloggið verður ekkert vandamál. Ég er búin að hlaða lyklaborðið, tengja við símann og prufa. Snilld.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2023 | 12:02
Taka upp þráðinn að nýju?
Nú eru liðin u.þ.b. 16 ár síðan ég bloggaði síðast en er tíminn ekki afstæður? Langt ferðalag er í bígerð og spurning hvort það geti ekki verið sniðugt að skrásetja helstu atriði og birta myndir af hinum ýmsu viðburðum ferðalagsins.
Meðfylgjandi er einn af viðburðum á lífsleiðinni en myndin var tekin 29. september 2016 þegar ég fékk að máta skrifborð forseta Íslands. Engar áhyggjur, ég stefni ekki að því að bjóða mig fram til forseta en viðburðurinn var engu að síður skemmtilegur.
Von mín er sú, að birta hér myndir og frásagnir af ævintýrum mínum og ferðafélaga minna á ferð okkar um Ástalíu í næsta mánuði.
Það þýðir ekkert að mótmæla þessu, ef áhugi er ekki fyrir hendi, þá er einfaldasta ráðið að fylgjast ekki með
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2007 | 20:53
Nóg að gera, þrátt fyrir allt
Þessi mynd er frá The Farewell Luncheon sem haldinn var síðasta föstudaginn í Washington 6/4. Helgin sú var ekki sú auðveldasta, að kveðja allt þetta góða fólk sem fór að tínast í burtu strax á föstudeginum allt fram á sunnudag, þegar ég fór sjálf. Það er ekki laust við að ég sé eitthvað undarlega innantóm eftir Washington-upplifunina, a.m.k. hefur það tekið mig smá-stund á morgnana þegar ég vakna, að átta mig á því hvar ég er stödd. Nú þarf að taka á hinum gráa hversdagsleika, sem hefur þó ekki verið svo grár, frá því ég lenti á Keflavíkurflugvelli eldsnemma að morgni annars í páskum.
Þann sama dag, eftir að ég hafði fengið fegurðarblundinn, dreif ég mig á Kaffi-París, til að hitta Daníel, ameríkana sem bjó á Gamla-Garði fyrir 18 árum (já ég eldist bara um eitt ár þegar aðrir eldast um fimm - og er því rétt rúmlega tvítug). Sá hittingur sannfærði mig um það skipti ekki máli þótt mörg ár líði án þess að fólk hittist eða eigi samksipti. The way to a friend is never long hvorki í tíma né rúmi. Það var eins og það hefðu bara liðið örfáir dagar, frá því við hittumst síðast.
Vikan sem liðin er frá því ég kom heim hefur farið í að hitta fjölskylduna og vini; páskamatur hjá Minný að kvöldi annars í páskum, hitti Kínafarana á þriðjudag, búbbulínurnar mínar á Kjalarnesinu á fimmtudag eftir heimsókn til Gurríar á Akranesi. Dúu og Gareth náði ég að hitta á laugardaginn, en þau voru á heimleið til Englands á sunnudag. Ekki nóg með það að ég dreif þau og Guðlaugu vinkonu með mér austur fyrir fjall, í Humarsúpu á Stokkseyri í tilefni af 6 ára brúðkaupsafmæli þeirra, komið var við í sveitabúðinni Sóley í bakaleiðinni. Þau hjónakornin þurftu að vera komin í bæinn um fimmleytið og við rétt náðum því. Þar sem dagurinn var rétt að byrja ákváðum við Guðlaug að skella okkur á Súfistann í Hafnarfirði og boðuðum Eddu Þorleifs þangað. Jæja, Guðlaug fór og við Edda héldum áfram að spjalla. Þar sem klukkan var ekki orðin átta, sáum við okkur leik á borði og drifum okkur í bíó Because I said so með Diane Keaton, voða skemmtileg mynd. Kíkti síðan til Unnar á sunnudaginn, þar er allt í kössum, því hún er að undirbúa flutning. Samt sem áður dreif hún mig með sér í Seltjarnarneskirkju á tónleika á vegum Listaháskóla Íslands, þar var Páll sonur hennar að spila ásamt strengjasveit. Ægilega fínir tónleikar. Svo var allt í einu kominn mánudagur aftur og tími til að fara í vinnuna. Núna rétt í þessu hringdi Sigrún Sveins frá Noregi til að bjóða mér í fermingarveislu þann 29. apríl. Það var ágætt að skrá þetta allt niður, því þótt mér hafi fundist ég vera í spennufalli eftir viðburðarríkar 6 vikur í Washington, sé ég að það er samt sem áður nóg fyrir mig að gera, hér á landi.
Margir nýju vinanna sem ég kynntist úti hafa verið í tölvupóstsambandi og lýsa yfir miklum söknuði eftir þeim stundum sem við áttum saman og eindreginni ósk eftir því að við munum hittast sem fyrst. Það vona ég líka.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)